135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:37]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu brýna úrlausnarefni, tel að það eigi fullt erindi inn í hið háa Alþingi. Ég held að það sé óþarfi að flækja þetta mál mjög mikið, sú mannekla sem við höfum áhyggjur af stafar aðallega — ég segi ekki eingöngu en að langstærstum hluta til — af launa- og kjaramálum. Þó að eitthvað hafi ræst úr núna varðandi starfsráðningar og meira vinnuafl breytir það ekki þeirri staðreynd að það þarf að gera bragarbót á þeim kjörum sem umönnunarfólk býr við nánast yfir alla línuna.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að tekið verði á þessum láglaunavanda og hinum kynbundna launamun — (Gripið fram í: Trúirðu þessu?) Það þarf ekkert að trúa því sem stendur í ríkisstjórnarsáttmálanum, ég er að lesa upp staðreynd um það hvað ríkisstjórnin hafi hugsað sér að gera í þessum málum. Þetta er grafalvarlegt mál, launamunur kynjanna er mjög stórt og mikið og alvarlegt vandamál. Ég tek þessa yfirlýsingu mjög alvarlega, held að við ættum öll að gera það og ég treysti því að henni verði fylgt eftir.

Mannekla á velferðarsviðinu á sér fyrst og fremst skýringu í launa- og kjaramálum kvenna og það er verkefni stjórnarflokkanna og meiri hlutans á hinu háa Alþingi að taka á því misrétti. Það er gott að heyra að um það ríki góður samhljómur innan allra stjórnmálaflokka.