135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

jarðskaut.

504. mál
[12:13]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Allt er það rétt. Ég mun óska eftir því við Neytendastofu, í framhaldi af þessari fyrirspurn, að hún geri úttekt á stöðu þessara mála því að þetta er mjög mikilvægur málaflokkur, að hún geri úttekt á stöðu rafskauta og tenginga og hvernig þessu sé háttað á heimilum og ekki síst í eldri húsum.

Það sem undirstrikar sérkenni málsins er, eins og þingmaðurinn nefndi, ósýnileiki vandans. Margir sem búa nálægt háspennulínum hafa bent á að — hv. þm. Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður, fjallaði stundum um þessi mál og margt merkilegt kom fram í umfjöllun hennar — ekki hafa verið gerðar ítarlegar eða fullnægjandi rannsóknir á áhrifum þess á heilsu fólks að búa nálægt háspennulínum, oft nokkra metra frá eins og mörg dæmi eru um. Í mörgum tilfellum hefur Landsvirkjun nánast vaðið yfir þak heimila með háspennulínur sínar vítt og breitt um sveitir landsins, hægt er að telja upp mörg dæmi beint úr stólnum. Þessu hefur ekki verið nægur gaumur gefinn, langt frá því. Fyrirtækið hefur verið skeytingarlaust um vandann, hann er til staðar. Það getur vel verið að áhrifin á heilsu sumra einstaklinga, stundum grafalvarleg, þingmaðurinn nefndi áðan hvítblæði, krabbamein o.fl., séu talsverð. Þessu hefur aldrei verið almennilega svarað. Það er ástæða til að svara þessu sérstaklega og leita eftir skýrum rannsóknum á því hver áhrifin eru. Það er mjög erfitt að útiloka að þau séu nokkur, eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar og fleiri hafa gert. Menn hafa ekki viljað viðurkenna að um stórmál sé að ræða sem þurfi að rannsaka og taka síðan á.