135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

endurskoðun laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði.

573. mál
[12:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin og eins það sem ég skil af orðum hans að hann telji ekki að þessi gagnagrunnur muni verða að veruleika. Ég er fegin að heyra það því að miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði, eins góður og hann getur verið þá held ég að hann mundi gagnast þjóðinni best með því að vera í vörslu hennar og til vísindarannsókna fyrir alla. En að því slepptu vil ég leita eftir frekari sjónarmiðum hæstv. ráðherra á því hvort hann telji það eðlilegt að tíminn verði látinn líða og leyfin falla úr gildi árið 2012, þ.e. eftir fjögur ár, eða hvort hann telji ekki eðlilegt að þar sem allar líkur séu á því að það verði ekkert af þessu og hugsanlega lítill áhugi í dag fyrir því að koma þessu á, að afnema þá heimild sem felst í lögunum.