135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð.

390. mál
[12:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi spurningum til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hvað líður áformum um aukið öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð?

2. Hefur verið gert áhættumat á núverandi vegi milli Ísafjarðar og Súðavíkur? Ef svo er, hvernig kemur það mat út miðað við tilsvarandi vegarkafla innan og milli byggðarlaga annars staðar?

3. Kemur til greina að gerð jarðganga um Súðavíkurhlíð verði sérstakt flýtiverkefni með tilliti til öryggis?

Íbúar Vestfjarða hafa mátt horfa upp á að fyrirheit stjórnvalda um vegabætur hafa verið svikin ár eftir ár. Öllum er minnisstætt þegar ríkisstjórnin skar niður fjármagn til vegaframkvæmda á árinu 2006, frestaði sérstaklega framkvæmdum á Vestfjörðum til að slá á þenslu á suðvesturhorninu.

Árið 1997 komu Vestfirðingar sér saman um forgangsröðun í vegagerð í fjórðungnum til næstu 10 ára. Á þeim tíma átti hringvegur að vera kominn með bundnu slitlagi sem tengdi allar byggðir fjórðungsins saman. Vonbrigði Vestfirðinga og meginþorra þjóðarinnar með sleifarlag stjórnvalda í vegagerð eru mikil því mikið vantar á að þessum markmiðum sé náð og þótt nokkuð að bætt sé í nú frá því sem aumast var á árunum 2004–2006 er fjarri því að vonir Vestfirðinga uppfyllist hvað þetta varðar fyrr en að nokkrum árum liðnum. Samgöngurnar skipta gríðarlega miklu máli, bæði milli héraða en ekki síður innan héraðs. Það var ekki síst fyrir þrýsting heimafólks í Bolungarvík og Ísafjarðarbæ sem ríkisstjórnin lét undan og samþykkti að fara í gerð jarðganga milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og óska ég íbúum til hamingju með að framkvæmdir þar eru hafnar.

Ég held að fleirum sé farið líkt og mér að það slær að manni óhug þegar lesnar eru fréttir af snjó- eða skriðuföllum á vegi eða byggðir. Þó brennur slíkt heitast á viðkomandi íbúum. Íbúar Súðavíkur hafa svo sannarlega mátt færa þessum náttúruöflum fórnir. Ítrekað mátti heyra í fréttum sl. vetur um að snjóflóð hafi fallið á Súðavíkurhlíð og menn biðu með öndina í hálsinum teftir að heyra framhaldið, hvort slys hafi orðið á fólki.

Því miður hafa hlíðarnar út frá Ísafirði tekið sinn toll. 12. febrúar sl. mátti sjá frétt í Bæjarins besta: „Um 40 snjóflóð á Súðavíkurhlíð á tveim dögum.“ Það er því ekki að undra þótt íbúar þessara byggðarlaga kalli á úrbætur þegar í stað. Nú þegar hafa íbúarnir á þessu svæði gripið til þess vopns sem oft hefur verið beitt á Íslandi, þ.e. að efna til undirskrifta undir kjörorðinu um að grípa nú þegar til aðgerða um að tryggja öryggi samgangna um Súðavíkurhlíð sem talið er að best verði gert með göngum. Um 1.500 manns hafa skrifað undir þetta áskorunarskjal.

Frú forseti. Þess vegna beini ég fyrrgreindum spurningum mínum til hæstv. samgönguráðherra og vonast eftir jákvæðum og öflugum svörum frá jafnsnöfurmannlegum ráðherra.