135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

lenging flugbrautar á Bíldudal.

490. mál
[13:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrstu spurningu í fyrirspurn sem hv. þingmaður hefur lagt fram um lengingu flugbrautar á Bíldudal vil ég segja þetta:

Flugbrautin á Bíldudal er 940 metra löng og 30 metra breið. Gert er ráð fyrir að með afkastagetu sé átt við hverjar séu helstu flugvélar sem geta notað flugbrautina. Þær flugvélar sem hafa verið notaðar í áætlunarflugi innan lands og gætu notað flugbrautina eru Dash8, Dornier, Twin Otter og minni flugvélar. Einnig geta Jetstream 32 flugvélar flugfélagsins Ernis notað flugbrautina en með mjög miklum takmörkunum á flugtaksþunga.

Ég kýs að svara annarri og þriðju spurningu samhliða en þær hljóða svo: „Liggja fyrir áform um lengingu flugbrautarinnar? Hvað mundi kosta að lengja flugbrautina um 250–300 metra og eru einhverjar tæknilegar hindranir fyrir því?“ Og svarið við þessum spurningum er:

Á þessu ári mun fara fram athugun á lengingu flugbrautar í 1.199 metra langa braut. Gerð verður framkvæmda- og kostnaðaráætlun og munu niðurstöður liggja fyrir í haust. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður væntanlega tekin ákvörðun um hvort svigrúm sé til þess að ráðast í þessa framkvæmd innan flugmálaáætlunar. Þá mun einnig koma fram í athuguninni hvort einhverjar tæknilegar hindranir séu fyrir framkvæmdinni. Samráð verður haft við Flugmálastjórn um málið.

Fjórða spurningin hljóðar svo: „Hvaða áhrif hefði lengingin á afkastagetu og þjónustustig flugvallarins?“

Miðað við 1.199 metra langa braut geta Jetstream 32 flugvélar Ernis notað flugvöllinn með fullum flugtaksþunga. Sækja yrði sérstaklega um heimild til Flugmálastjórnar um notkun flugvallarins fyrir F50 flugvélar Flugfélags Íslands hliðstætt og gert hefur verið varðandi flugvöllinn í Grímsey.

Fimmta spurningin hljóðar svo: „Hvaða áhrif gæti lenging brautarinnar haft fyrir aukna ferðamennsku og sjóstangveiði vestra og útflutning sjávarfangs þaðan?“

Með stærri flugvélum er unnt að flytja fleiri ferðamenn í hverri ferð. Sem dæmi mundu F50 vélar geta flutt 50 ferðamenn í stað 38 ferðamanna sem hægt er að flytja miðað við núverandi aðstæður. Samkvæmt Ferðamálasamtökum Vestfjarða telja þau líklegt að miðað við eftirspurn í dag muni 38 sæta vélar duga enn um sinn. Innan fárra ára gæti staðan hafa breyst og þá yrði þörf fyrir stærri vélar. Ekki hefur verið gerð könnun á því hvaða vöruflutningavélar gætu notað flugbrautina fyrir útflutning á sjávarfangi.

Síðasta spurningin hljóðar svo, virðulegi forseti: „Kæmi til greina að lenging flugbrautarinnar yrði sértæk flýtiaðgerð til að skjóta styrkari stoðum undir samgöngur og auka samkeppnishæfni þjónustu og atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum?“

Slíkt kemur ætíð til greina. Í fljótu bragði verður þó ekki séð að þörf sé á að grípa til slíkra aðgerða nú þar sem að mati Ferðamálasamtaka Vestfjarða duga núverandi aðstæður vel en þá fyrst og fremst miðað við sjóstangveiði en ekki er talið að lenging vallarins og stærri vélar hafi áhrif á aðra ferðaþjónustu. Eftir nokkur ár gætu þessar aðstæður hafa breyst eins og áður sagði. Í dag er líklegra að fleiri flug til staðarins hefðu góð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu.