135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

erfðabreytt matvæli.

585. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Það er hárrétt, sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, segir, það er óásættanlegt að ráðherrar gefi hér árum saman sömu svörin. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir stóð í sömu sporum og hæstv. ráðherra stendur nú og gaf svipuð svör fyrir sjö til átta árum.

Þeir eru orðnir þrír umhverfisráðherrarnir sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum spurt um nákvæmlega þessa hluti. Svörin eru alltaf þau sömu og þau eru núna, árið 2008, níu árum eftir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sat sitt fyrsta þing, nákvæmlega sömu svörin. Hæstv. ráðherra getur ekki sagt okkur hvar málið er statt eða hversu langt er í að íslenskir neytendur geti, líkt og neytendur annars staðar í Evrópu, valið á milli þess að kaupa erfðabreytt fæði ofan í sjálfa sig, börn sín og fjölskyldur, eða ekki.

Ég læt liggja á milli hluta, af því að ekki er tími til, umræðuna um hversu hættuleg erfðabreytt matvæli geti verið heilsu fólks. Ég sé það bara að neytendur gera þessa kröfu. Við opnum varla blað nú orðið án þess að sjá einhverjar greinar um erfðabreytt matvæli og þessar kröfur sem neytendur gera. Síðast var það í DV í dag þar sem er stór fyrirsögn um að erfðabreytt soya sé hættulegt börnum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að reka af sér slyðruorðið, ganga í þetta mál, skoða hvar það er statt, hvað er búið að vinna mikið af forvinnu í því og drífa það fram hér þannig að íslenskir neytendur þurfi ekki lengur að búa við óforsvaranlega óvissu varðandi þessi mál.