135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

samskipti ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

584. mál
[15:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er ekki nýtt að samskipti ríkisstjórnar og Seðlabanka beri á góma í þessum sölum. Satt best að segja er það þannig að um nokkurra ára skeið hefur það verið kunnuglegt stef í umræðum um efnahagsmál að þessir tveir aðilar gengu ekki nægilega vel í takt. Það ber að taka skýrt fram að það á ekki bara við um núverandi ríkisstjórn heldur var það kannski ekki síður áberandi á árunum 2005–2007 að ráðgjöf og álit Seðlabanka í ýmsum málum gekk talsvert á skjön við það sem ríkisstjórn aðhafðist á sama tíma og það virtist ekki vera um mikla samstillingu kraftanna að ræða.

Núverandi ríkisstjórn hefur á köflum valdið áhyggjum. Þannig þykist ég t.d. muna rétt að hæstv. forsætisráðherra hafi á einhverju stigi í sumar eða haust tekið þannig til orða að vaxtaákvörðun Seðlabanka þá væri óheppileg. Hæstv. utanríkisráðherra hefur gengið enn lengra og hefur ítrekað síðsumars, í haust og fram eftir vetri haft uppi opinberar efasemdir um að stýritæki og vopn Seðlabankans væru að virka. Augljóst er að það er ekki heppilegt að jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn og forustumenn stjórnarflokka dragi þannig beinlínis í efa virkni aðgerða Seðlabankans eða lýsi sig þeim ósammála. Ég tek að vísu eftir því að hæstv. forsætisráðherra hefur hagað orðum sínum um þessi samskipti nokkuð á annan hátt núna bak páskum og það er vel. Þó er ekki lengra síðan en svo að 4. mars sl. áttum við orðastað um efnahags-, atvinnu- og kjaramál og þá innti ég hæstv. ráðherra eftir því hvernig væri háttað samskiptum ríkisstjórnar og Seðlabanka varðandi peningamálastefnuna og hvort fyrirhugaðar væru viðræður milli ríkisstjórnar og bankans um að breyta henni. Svarið var stutt og laggott: Engar slíkar viðræður hafa farið fram og ekkert verið ákveðið um slíkt. Ég verð að segja að ég varð nokkuð hugsi þegar ég fékk þetta svar og í framhaldinu hvort það væri virkilega svo að enn ræddu menn ekki saman með eðlilegum hætti um þessi mál og stilltu saman strengi.

Nú er einfaldlega svo komið eða búið að vera um margra mánaða skeið í efnahagslífi okkar að við höfum ekki efni á því að menn gangi ekki í takt og við verðum að grafa gamlar stríðsaxir djúpt í jörðu. Gamlar væringar, stofnanakergja eða óheppileg efnahvörf milli manna mega ekki verða til þess að trufla taktinn í hagstjórn í landinu lengur. Mér þótti því rétt að gefa hæstv. forsætisráðherra færi á því með fyrirspurn á Alþingi að svara fyrir um það hvernig þessum samskiptum er nú háttað og líka vegna þess að ýmiss konar orðasveimur hefur verið í gangi um að hlutirnir væru þar ekki með eðlilegum hætti. Ég hef því spurt út í samskiptin, fundi, orðsendingar, nótur og eins hvernig samskiptum Seðlabanka og ríkisstjórnar hvað varðar undirbúning að því að auka gjaldeyrisvaraforðann hafi verið háttað.