135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[11:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Sagt er: Betri er fugl í hendi en tveir í skógi. Það á við um þetta að þær gífurlegu hagnaðartölur sem menn eru að tala um eru í skógi, fljúgandi þar um og lenda aldrei í ríkissjóði. Hér er því verið að horfast í augu við raunveruleikann og stíga það skref að segja að þetta sé skattfrjálst eins og það hefur í reynd verið — eins og reyndar gildir líka um íbúðarhúsnæði einstaklinga, hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis er líka skattfrjáls þannig að þetta er ekkert stílbrot umfram það, þetta hefur verið í gildi í fjölda ára hér á Íslandi.

Við erum að gefa atvinnulífinu það merki að ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir standi með því. Það er mjög mikilvægt að þjóðin hafi gott og heilbrigt atvinnulíf sem getur borgað há laun, sem getur borgað háa skatta og starfsmennirnir borga háa skatta inn í ríkissjóð, þannig að það standi undir góðu og skilvirku — (Gripið fram í.) það er nefnilega málið, við gefum signal þannig að þeir geti skilað góðum hagnaði og haft fólk með há laun og borgað háa skatta (Forseti hringir.) í ríkissjóð þannig að við getum haft gott og skilvirkt velferðarkerfi.