135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:59]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Það eru stór orð, virðulegi forseti, að við séum að hætta á að eyðileggja íslenska heilbrigðiskerfið. Við erum ekki að veita ráðherra nýjar valdheimildir. Við erum að takmarka núverandi valdheimildir sem þegar eru í lögum og búa þeim faglegan búning. Hvernig það getur falið í sér eyðileggingu er hulið mínum skilningi og líklega flestra annarra sem hafa haft fyrir því að lesa þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér af nokkru steigurlæti um sögu íslenskra jafnaðarmanna og þykist vera þess umkominn að reyna að kenna mér jafnaðarmennsku. Ég ætla bara að vitna í þáverandi hv. þm. Vilmund Jónsson, sem ég vitnaði í í ræðu minni fyrr í dag. Það er greinilega þörf á að endurtaka það hér því að hv. þingmaður hefur augljóslega ekki heyrt það.

Hann sagði árið 1932 í umræðu um berklavarnir er hann mælti fyrir breytingartillögu sinni að Stjórnarráðið ætti að semja við sjúkrahúsin, þau sem eru til þess hæf, að taka á móti berklasjúklingum, með leyfi forseta:

„Ég býst við, að um það mat á sjúkrahúsunum verði að hlíta dómi ríkisstjórnarinnar.“

Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Hins vegar minnir tillagan á, að eigi skuli semja við sjúkrahús, sem eru verulega ófullkomin, illa sett eða innréttuð, svo að ekki sé hægt að einangra þar sjúklinga o.s.frv.“

Hvað vakti fyrir hv. þm. Vilmundi Jónssyni þegar hann stóð í þessum stól 1932? Jú, nákvæmlega það sem vakir fyrir okkur í dag, að tryggja almennilega þjónustu við þá sem á þjónustunni þurfa að halda, tryggja gæði þjónustunnar og tryggja að hún sé borin fram með fullnægjandi hætti. Hann saknaði þess hins vegar að ekki væri fyrir hendi nauðsynleg umgjörð til þess að leggja faglegt mat á hæfni þeirra sem veittu þjónustuna og kallar sérstaklega eftir því að svo verði gert. Hann egir að því miður verði að una við mat ríkisstjórnarinnar á því og gerir sér grein fyrir því að það kunni að vera handahófskennt.

Ó, nei, góðir félagar. Við erum nú fyrst að gera það sem Vilmundur Jónsson kallaði eftir 1932, að koma hér á faglegu kerfi, skilvirku kerfi, tryggja eftirlitið með gæðum þjónustunnar. Ég frábið mér að hv. þm. Ögmundur Jónasson reyni að gera lítið úr jafnaðarmennsku Samfylkingarinnar. Það sem við erum að gera er að ljúka því verki sem Vilmundur Jónsson hóf.