135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

niðurstaða nefndar um skattlagningu eldsneytis.

[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það er mikilvægt að nefndir af þessu tagi sem við höfum verið að setja á laggirnar velti fyrir sér þessum erfiðu málum, þeim úrlausnarefnum sem við er að glíma. En ég er ekki sannfærð um að við leysum hugarfarsbreytinguna með því að setja málin í nefnd. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þessi ríkisstjórn hafi kannski verið fullglöð við að setja málin í nefndir og látið málin liggja um of inni í nefndum og sinnt í engu, litlu sem engu, þeirri vinnu sem þarf að fara fram varðandi hugarfarsbreytinguna því hæstv. forsætisráðherra sagði í þessum ræðustóli áðan að það skipti verulegu máli að breyta hugarfari þjóðarinnar. Hvernig ætlar ríkisstjórn að gera það? Ætlar hún að ganga á undan með góðu fordæmi? Ætlar hún að ganga á undan með góðu fordæmi varðandi sjálfbæra orkustefnu? Ekki sýnist mér það. Svörtu stífbónuðu drossíurnar hérna fyrir utan gefa mér engin merki um að þessi (Forseti hringir.) ríkisstjórn ætli sér að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja af notkun jarðefnaeldsneytis.