135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

störf þingsins.

[11:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að inna hv. formann heilbrigðisnefndar, Ástu Möller, frekar eftir því hvort heilbrigðisnefnd hafi kallað eftir að fá til umsagnar og skoðunar þetta mjög svo umdeilda matvælafrumvarp sem rætt er um, þ.e. heimild til innflutnings á hrámeti til landsins, hráu kjöti og hráum kjötvörum. Ég tel að í þeirri umfjöllun sem verið hefur á undanförnum dögum og þær umsagnir sem komið hafa fram um málið krefjist þess raunar að heilbrigðisnefnd taki málið til umfjöllunar. Þetta er snar þáttur og skiptir heilbrigði fólks miklu máli, þ.e. fæðan og sýkingarmöguleikar henni tengdir sem geta borist með matvælum hingað til lands ef þetta frumvarp fer í gegn. Það er því ábyrgðarhluti ef hv. heilbrigðisnefnd Alþingis Íslendinga tekur þetta mál ekki til skoðunar og fer yfir þá hættu sem að heilbrigðismálum snýr. Ég hvet því hv. formann heilbrigðisnefndar Alþingis og heilbrigðisnefnd alla til að óska eftir því með formlegum hætti að fá þetta mál til umfjöllunar. Ég hvet einnig formann landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar til þess að hafa frumkvæði, átta sig á alvarleika málsins og senda það heilbrigðisnefnd til umsagnar.