135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:26]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal að vísu viðurkenna að þessir miklu prófessorar, Eiríkur Tómasson, Sigurður Líndal og Karl Axelsson lögmaður — þar voru mikil stórveldi á ferð og höfðu þessa sannfæringu. Það er auðvitað eðlilegt að það drægi úr áhyggjum nefndarinnar og hv. þingmanna. Við töldum samt sem áður að mikilvægt væri að ræða þetta betur og skapa meiri sátt um það.

Eðlilega er það svo, sem ég tek undir, að þá tveir deila hefur ekki bara annar rétt fyrir sér og ýmislegt sem sveitarfélögin settu fram gat ég ekki fallist á. Mér fannst mjög eðlilegt að miða fremur við 65 ár en 99 ár og 65 ár eru jafnvel einnig fulllangur tími. Ég tek undir með hv. þingmanni og formanni nefndarinnar að þetta var á margan hátt ágætlega unnið mál og hlustað var á sjónarmið. Sumt er komið í breytingartillögum til baka og þakka ég fyrir það um leið og ég þakka samstarfið í þessu stóra máli.