135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:35]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Gott kvöld. Góðir Íslendingar. Frjálslyndi flokkurinn er lýðræðislegur stjórnmálaflokkur sem hefur það að leiðarljósi að vera vettvangur fólks sem vill taka virkan þátt í stjórnmálastarfi og lifandi skoðanaskiptum um samfélagsmál, sem byggja á hófsömum borgaralegum gildum um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Grundvallarstefna Frjálslynda flokksins leggur áherslu á frjálsræði, lýðræði og jafnrétti þegnanna. Flokkurinn aðhyllist frjálst markaðshagkerfi með jöfnum tækifærum og hafnar ríkisforsjá, þar sem því verður við komið. Flokkurinn hafnar með öllu hvers kyns misrétti og einokun, en hefur frelsi einstaklingsins og sjálfstæði til orðs og athafna að leiðarljósi, enda gangi einstaklingsfrelsi ekki gegn rétti annarra. Frjálslyndi flokkurinn hafnar því þeirri einokun sem felst í núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi.

Frjálslyndi flokkurinn vill stuðla að opnu og lýðræðislegu samfélagi sem byggir á virkri þátttöku einstaklingsins, valddreifingu, borgaralegum og félagslegum mannréttindum og félagslegu öryggi. Þannig er grundvallarstefnan mörkuð í lögum Frjálslynda flokksins. Efnislega óbreytt frá því flokkurinn var stofnaður fyrir tæpum áratug.

Niðurstöður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eru ótvíræður áfellisdómur yfir kvótakerfi með leigu- og sölurétti á óveiddum fiski, sameiginlegri þjóðarauðlind Íslandsmiða. Álitið staðfestir það sem við í Frjálslynda flokknum höfum ávallt sagt um kvótabraskskerfið. Íslenska þjóðin, ekki síst fólkið í strandbyggðum þessa lands, hefur beðið um réttlæti áratugum saman. Árum saman hafna 70% fólks í skoðanakönnun því kvótabraskskerfi sem rústar byggð, en ríkisstjórnin vill viðhalda.

Íslenska þjóðin getur státað af því að búa við elsta þjóðþing í heimi.

Ríkisstjórn sem kýs að brjóta mannréttindi á eigin þegnum, á ekki skilið að fá hið eftirsótta sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Góðir Íslendingar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er nú orðin eins árs gömul. Sjaldan hefur þjóðin horft upp á jafnósamstiga stjórn. Þau eru þegar orðin fjölmörg málin sem stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um. Spyrja má hversu lengi ríkisstjórnin þoli innbyrðis ósætti á erfiðum tímum, þegar þjóðin þarf á styrkri stjórn að halda.

Einstakir þingmenn Samfylkingar eru óánægðir með slælega framgöngu ríkisstjórnarinnar vegna mannréttindaúrskurðar Sameinuðu þjóðanna, þó að ráðherrar flokksins virðist láta sér vel líka í notalegum ráðherrastólum. Mikill ágreiningur er um hvalveiðar og hann borinn á torg á alþjóðavettvangi. Eflaust er það vegna þess að Samfylkingunni er umhugað um að reyna að friða þær þjóðir sem hafna hvalveiðum.

Utanríkisráðherra óttast að atkvæði til setu í öryggisráðinu tapist vegna þess að Íslendingar veiða 40 hrefnur. Andstöðu sína gegn hvalveiðum reynir Samfylkingin að verja með því að hagsmunir ferðaþjónustu séu í húfi, meiri hagsmunir fyrir minni, segir utanríkisráðherra. Á Sægreifanum hér við höfnina í Reykjavík mæta þúsundir erlendra ferðamanna til að borða hvalkjöt. Þar auglýsir vertinn Moby Dick on the Stick og túristi borðar hvalkjöt með gleðibros á vör. Hvalaskoðun vex fiskur um hrygg ár eftir ár og önnur ferðaþjónusta einnig, enda Íslandsmið nógu stór fyrir veiðar og útsýnisferðir samtímis.

Það eru fleiri stór ágreiningsmál sem snúast í raun um grundvallaratriði í ríkisstjórnarsamstarfi. Ekki er samstaða um hvernig fara eigi með Íbúðalánasjóð. Embætti ríkislögreglustjóra og sýslumannsembættið í Keflavík eru líka alvarleg ágreiningsmál.

Stærsta ágreiningsmálið er síðan afstaða flokkanna til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Það mál hefur knúið á með ört vaxandi þrýstingi nú í vetur, m.a. vegna þeirrar fjármálakreppu sem dunið hefur á þjóðinni. Kreppu sem ríkisstjórnin með fjármálaráðherra í fararbroddi skellti algerlega skollaeyrum við þegar fjárlög voru afgreidd hér í þinginu á haustdögum. Ég minnist þess hvernig fjármálaráðherra talaði um að hér væri allt í himnalagi þegar við í Frjálslynda flokknum töldum blikur á lofti í efnahagslífinu. Enginn innan stjórnarflokkanna tók undir aðvaranir í umræðum um fjárlög 2008 né gerði neitt með spurningar stjórnarandstöðu um á hvaða vegferð ríkisstjórnin væri í fjármálum og efnahag.

Við í Frjálslynda flokknum höfum aldrei alfarið hafnað Evrópusambandsaðild. Við höfum hins vegar bent á að eins og málum er nú komið þá getum við ekki farið þá leið að leita eftir aðild nema að undangengnum breytingum á okkar eigin lagaumhverfi. Þær breytingar lúta að því að eignarhald og nýtingarréttur íslenskra auðlinda verði á forræði íslensku þjóðarinnar eins og verið hefur.

Það hefur syrt verulega að í efnahagslífi þjóðarinnar. Hugsanlegt atvinnuleysi veldur okkur í Frjálslynda flokknum miklum áhyggjum. Við verðum að koma í veg fyrir slíkt með öllum tiltækum ráðum. Við vitum að það er að draga mikið saman á byggingamarkaði en ekki hve djúp sú sveifla verður. Opinberar framkvæmdir vega eitthvað þar á móti. En það ræður ekki atvinnuástandi í landinu.

Stjórnvöld verða að senda út jákvæð merki sem auka bjartsýni og þrótt í atvinnulífinu. Ég segi það alveg hiklaust, það á að auka við þorskveiðarnar. Allir sem ég tala við og stundað hafa fiskveiðar í vetur eru sammála um að ekki sé ástæða til að halda sig við þau svartnættismörk sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt upp með í ráðgjöf sinni. Það er ekki ábyrgðarleysi að taka lán í lífríki sjávar. Það getur gefið góða ávöxtun að taka slíkt lán, því að við verðum að koma í veg fyrir mjög mikla niðursveiflu á landsbyggðinni sem verður okkur öllum sem þjóð til mikils tjóns þegar fram í sækir.

Samhliða þessu verðum við að endurskoða alla okkar nýtingarstefnu á fiskstofnum við Ísland. Árangursleysi kvótakerfisins er ekki einleikið. Við erum að gera þar mistök.

Menn eru ekki að gera rétta hluti á mörgum sviðum hvað víkur að landsbyggðinni, og það verður að horfa til þess að það er ekki bara á Reykjavíkursvæðið sem menn horfa á fasteignamarkaðinn og minnkandi atvinnu. Það verður að horfa á landsbyggðina líka.

Eitt af stærri ágreiningsmálum á þinginu nú tengist svokölluðu matvælafrumvarpi.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins leggst gegn því að matvælafrumvarpið verði afgreitt á vorþingi. Málið er óvenjulega viðamikið og meta þarf áhrif þess á framkvæmd heilbrigðiseftirlits, framleiðslu og úrvinnslu á landbúnaðarvöru og verðlagi á þeim.

Í engu á að hvika frá reglum sem eiga að koma í veg fyrir að sjúkdómar berist til landsins. Fyrir liggur það mat hagsmunaaðila að samþykkt frumvarpsins muni leiða af sér vaxandi innflutning á kjötvörum sem leiði síðan til verulegrar fækkunar á störfum í framleiðslu og úrvinnslu. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir en talið er að fækkun starfa geti numið nokkrum þúsundum. Sambærilegur samdráttur er fyrirsjáanlegur í framleiðslu og vinnslu innlendra mjólkurafurða komi til innflutnings á þeim vörum, sem telja verður óhjákvæmilegt í kjölfarið á breytingunni á kjötvörunum, ef hún verður eins og hún er boðuð.

Atvinnuháttabreytingar af þessari stærðargráðu eru með öllu óviðunandi og þingflokkurinn mun ekki standa að lagasetningu sem leiðir slíkt af sér.

Við leggjum til að Byggðastofnun verði falið að meta áhrifin á atvinnumál af innflutningi landbúnaðarvöru og að það mat liggi fyrir áður en að frumvarpið verði afgreitt.

Innflutningur án virkrar samkeppni er bein ávísun á aukinn gróða fárra smásöluaðila á kostnað neytenda. Við þessar aðstæður er fráleitt að opna fyrir innflutning á kjöt- og mjólkurvörum.

Ágætu landsmenn. Í upphafi máls míns vék ég að því að Ísland væri aðili að alþjóðlegum skuldbindingum. Þetta gildir ekki síst um alþjóðlegt hjálparstarf. Við verðum sem smáþjóð með takmörkuð fjárráð og getu ávallt að velta fyrir okkur með hvaða hætti við getum hjálpað sem flestum svo um muni. Við eigum að einbeita okkur að því að hjálpa flóttafólki á þeim svæðum sem það býr og búa því þar betra líf að því gefnu að þar geti það dvalist við öryggi og afkomu. Sem lítil þjóð tel ég afar mikilvægt að við miðum við að hjálpa jafnan sem flestum. Að við nýtum fjármuni og mannafla sem best. Við eigum að leggja áherslu á það sem skiptir máli sem er að bjarga sem flestum mannslífum og veita sem flestum ásættanlegan aðbúnað. Í málefnum flóttamanna lýsum við vilja til þess að bjóða flóttafólki búsetu og dvöl hér á landi. Við viljum að Íslendingar taki virkan þátt í mannúðar- og hjálparstarfi á erlendum sem innlendum vettvangi. Við teljum að auka þurfi fjármagn til málaflokksins á komandi árum.

Að lokum eru það samgöngumálin. Betri samgöngur skipta okkur verulegu máli og sá sem hér stendur talar hiklaust fyrir aukinni jarðgangagerð og þverun fjarða, svo að fá megi betri, öruggari og styttri vegi. Ég sé ástæðu til að þakka Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra Reykjavíkur, fyrir hans einörðu og skynsamlegu afstöðu til þess að viðhalda flugvellinum í Reykjavík þar sem hann er. Það skiptir alla landsmenn miklu að hafa góðan og öruggan aðgang að þeirri þjónustu sem veitt er í Reykjavík og landsmenn allir eiga rétt á.

Það er ávinningur fyrir framtíðina að hafa Reykjavíkurflugvöll nærri miðborginni. Vonandi vex sá skilningur áfram meðal borgarbúa einnig.