135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:18]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn.

 

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast

sem aldrei verður tekið til baka?

 

Svo kvað Einar Benediktsson um það sem nærir mannssálina, hlýjuna, tillitssemina og viðkvæmnina. Á degi barnsins lesum við að barnaverndarmálum hafi fjölgað svo mjög hérlendis að kerfið hafi ekki undan. Við lesum um yfirgefin börn fíkniefnaneytenda og við lesum almennt um átakanlega fáar samverustundir barna og foreldra. Við lesum einnig um að æ fleiri konur líði fyrir hörmulegar afleiðingar nauðgana, vændis, mansals og kláms.

Þegar við fáum slíkar fréttir erum við gjörn á að ímynda okkur að þessi börn séu annarra manna börn, að þessar konur séu ókunnugar konur. Með slíkum hugsunarhætti tökum við þátt í sinnuleysi og sjálfsblekkingu. Það ætti að vera óumdeilanlegur styrkleiki okkar litla samfélags að geta litið á öll börn sem okkar börn, alla sjúka sem okkar sjúku og alla aldraða sem okkar aldraða. Ef við glötum þeirri ómetanlegu hugsun að við berum ábyrgð hvert á öðru, að við erum öll á sama báti í einu samfélagi samhygðar þá höfum við glatað því dýrmætasta sem íslenskt samfélag ætti með réttu að byggja á. Gefur vanlíðan og einmanaleiki fjölmargra barna ekki merki um að eitthvað mikið sé að í þjóðfélagi okkar? Er þessi vitneskja ekki logandi aðvörunarljós til yfirvalda og okkar allra?

Hjá mörgum íslenskum fjölskyldum sverfur nú að. Það reynir á hver við erum og fyrir hvað við viljum standa, á hverju og hverjum við berum sameiginlega ábyrgð. Við höfum séð einkaþoturnar hefja sig til flugs, við höfum séð milljarðamæringana vaxa og dafna, við höfum séð sameignir þjóðarinnar verða einkavæðingunni að bráð. Ekki veit ég hvort kvennastéttir þessa lands, umönnunarstéttirnar, séu jafnánægðar með ríkisstjórnina og ríkisstjórnin sjálf en auðmenn landsins eru e.t.v. þokkalega sáttir.

Hvort er það fólk eða fjármagn sem nær eyrum yfirvalda í verki? Hvort eru það bankarnir eða heimilin sem standa okkur næst? Háir vextir, vaxandi verðbólga, aukin misskipting, fátækt, langir vinnudagar, fjarvera, álag, skuldasöfnun og svo mætti lengi telja. Ég spyr: Á hvaða einstaklingum samfélagsins bitnar slíkt mest? Við fáum aldrei til baka æsku barnanna okkar, sakleysi og uppvaxtarár, við fáum aldrei til baka samverustundir sem ekki urðu. Við fáum aldrei til baka heilsu og þrótt aldraðra foreldra okkar. Við fáum aldrei til baka þá fossa sem eitt sinn hverfa. Góðir landsmenn. Á tímum sem þessum er fátt mikilvægara en að gera okkur skýra grein fyrir því hvað það er sem er okkur dýrmætast, hvað það er sem ekki verður tekið til baka.

Eitt af fjöreggjum íslensks samfélags er öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla, byggð á félagslegum, sameiginlegum grunni. Það tekur ár og áratugi, jafnvel aldir að byggja upp réttlátara samfélag fyrir alla. Það þarf hins vegar aðeins fáar vanhugsaðar ákvarðanir, kreddukennda markaðsvæðingu og óvönduð lög til að brjóta samfélagslega innviði niður. Ég staðhæfi fullum fetum að aldrei í sögu lýðveldisins hafi verið gert jafnhart áhlaup að hinu félagslega heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga og nú. Heilbrigðiskerfið skal markaðsvæða sama hvað hver segir, heilbrigðisþjónustan skal skref fyrir skref bútuð niður og færð einkaaðilum til umsýslu. Þetta skal gert þrátt fyrir slæma reynslu annarra þjóða, aukna mismunun, óhagkvæmni og sundurleysi.

Það er ekki bara mikilvægt fyrir okkur sem manneskjur og einstaklinga að hugsa til þess sem ekki verður tekið til baka í okkar eigin lífi, það er einnig mikilvægt að hugsa til þess sem heilt samfélag getur ekki tekið til baka sem það eitt sinn lætur af hendi. Þær ákvarðanir sem teknar eru hér í þessum sal eru afdrifaríkar fyrir samfélagið allt, fyrir fjölskyldurnar í landinu, fyrir gamla fólkið, fyrir börnin, fyrir umhverfið. Hér er tekist á um innviði samfélagsins og framtíð. Á okkur þingmönnum öllum hvílir þung ábyrgð. Það vill þannig til, hæstv. forseti, þó að sumir í þessum sal eigi bágt með að trúa því, að meiri hlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, meirihlutavaldinu væri stundum hollt að hlusta.

Góðir landsmenn. Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Við skulum hafa hugrekki og þrek til að snúa af þeirri braut sem ríkisstjórnin hefur markað, snúa af braut einkavæðingar, markaðshyggju, græðgi, misskiptingar og náttúrueyðingar og segja: Hingað og ekki lengra. Það er kominn tími fyrir íslenskt samfélag að snúa heim. — Góðar stundir.