135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:25]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Grétar Mar bregður ekki af vana sínum með stóryrðin sem eiga alls ekki við hér í þessu máli. (Gripið fram í.)Ég vil hins vegar þakka málshefjanda, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, kærlega fyrir að hefja þessa umræðu og hversu málefnalegur hann var í máli sínu um þetta mikilsverða mál sem auðvitað skiptir máli fyrir okkar grundvallaratvinnugrein. Ég vil einnig þakka ráðherra fyrir að hafa brugðist við þessari umræðu nú á lokadegi þinghaldsins á þessu vori.

Það er rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að sú nefnd sem við ræðum hér um niðurstöðurnar frá nýtur ekki stöðu dómstóls, hún kveður hvorki upp dóma né tekur ákvarðanir sem eru bindandi að þjóðarrétti. Niðurstöður þessarar nefndar um efnishlið máls kallast sjónarmið, þ.e. það sem á ensku er kallað „views“. Í sjónarmiðum nefndarinnar kunna að felast tilmæli til viðkomandi aðildarríkis um að rétta hlut kæranda eða eftir atvikum að breyta löggjöf en ekki eru til staðar úrræði til að fylgja eftir slíkum tilmælum.

Hér hefur komið fram að það hefur alltaf staðið til að taka þetta álit mjög alvarlega en við skulum líka hafa í huga að þetta álit mannréttindanefndarinnar gengur gegn niðurstöðum íslensks landsréttar, þ.e. dómi Hæstaréttar í Vatnseyrarmálinu svokallaða þar sem meiri hluti Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að 7. gr. laga um stjórn fiskveiða fullnægði jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum um jafnræði sem gæta þyrfti að við takmörkun á atvinnufrelsi, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég vil svo taka fram, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að ég beitti mér fyrir mikilli umræðu og upplýsingagjöf (Forseti hringir.) í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem við fengum fjölda gesta, (Forseti hringir.) bæði fræðimenn og hagsmunaaðila, til að ræða við okkur um þetta mál.