135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum þó samherjar í því a.m.k. að grafa ekki frekar undan krónunni en orðið er. Hún hefur átt fáa vini á köflum, blessuð. Ég er reyndar sammála þeirri greiningu að hluti af vanda okkar sé sá að gengið varð jafnóraunhæft á hina hliðina og það er kannski of lágt núna, og eitthvert jafnvægisgengi á krónunni er auðvitað mjög mikilvægt og að því þurfum við að stefna. Þar í liggja m.a. mistökin að mönnum yfirsást það. Það er ekki nóg að einblína bara á þröng verðbólgumarkmið ef sveiflurnar eru svona rosalegar á hina hliðina hvað varðar gjaldeyrinn vegna þess að það kemur síðan í bakið á mönnum líka inn í verðlagið. Seðlabanki sem einblínir bara á verðmælingarnar í núinu en lætur sér í léttu rúmi liggja hvernig gjaldmiðillinn sveiflast fær það í hausinn síðar meir. Í því liggja að mínu mati m.a. mistök Seðlabanka og ríkisstjórnar á undanförnum árum að þetta hangir miklu meira saman en menn vilja kannski vera láta í orði kveðnu.

Jöklabréfin upp á 500–800 milljarða kr., eða hvað það nú er á fóðrum hér í hagkerfinu, sem blóðmjólka vaxtamuninn milli Íslands og nágrannalandanna og flytja það úr landi í mánuði hverjum eru mikill hausverkur. Það er akkúrat hárrétt, og eitt af því sem við verðum einhvern veginn að átta okkur á er hvernig við náum að vinna okkur út úr þeirri stöðu.

Varðandi vísitölubindingu almennt í hagkerfinu held ég að það sé slæmt að við Íslendingar skulum hafa svona mikla sérstöðu í því að fjárskuldbindingarnar og alveg sérstaklega fjárskuldbindingar heimilanna séu að svona miklu leyti verðtryggðar og vísitölubundnar og þess vegna — enn litið í baksýnisspegilinn — hefðum við auðvitað átt að nota tækifærið þegar verðbólga var minni og reyna að byrja að vinda okkur út úr því, bakka út úr því. Það var alltaf í orði kveðnu ætlunin. Strax árið 1990 þegar þjóðarsáttin var gerð og menn sáu í fyrsta skipti sumarið 1990 eins stafs tölu í verðbólgu byrjuðu þeir að ræða að nú væru að skapast forsendur til þess að byrja að bakka út úr verðtryggingunni. Síðan hefur það ekki verið gert á sama tíma og (Forseti hringir.) laun og ýmsir aðrir hlutir eru auðvitað ekki tryggðir með þessum (Forseti hringir.) hætti. Þetta misgengi er slæmt.