135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[13:48]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg skýrt að ég styð að fólk fái bætur. En ég styð ekki þann gjörning ríkisstjórnarinnar að setja bráðabirgðalög, mér fannst ekki rétt að gera það með þessum hætti. Auðvitað styð ég flesta þætti í frumvarpinu en ég neita því ekki að hugsanlega eru ákveðnir þættir, eins og hæstv. ráðherra minntist sjálfur á, sem gerð verður breyting á. Í megindráttum styð ég það að lækka sjálfsábyrgðina og tryggja að fólk fái bætur.

Ég veit að búið er að borga 1,6 milljarða í bætur en ég óttast að einhverjir lendi utangarðs og fái ekki bætur fyrir það tjón sem þeir hafa orðið fyrir í þessum skjálfta. Í stórum dráttum fagna ég því að ríkisstjórnin skyldi þó gera eitthvað en ég er ekki sammála því að setja bráðabirgðalög. Í þessu tilfelli áttum við annaðhvort að fresta því að slíta þinginu, jarðskjálftinn varð í vor áður en við slitum því, og/eða kalla þing saman aftur til að setja lög en ekki bráðabirgðalög.