135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:02]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hún er merkileg þessi aðgreining sem vinstri grænir gera á milli góðra einkaaðila og vondra. Það væri mjög gaman að vita hver mörkin eru þar.

En ég veit ekki betur en allt hafi orðið vitlaust hjá þingmönnum Vinstri grænna þegar við ræddum þjónustu sem Grund var að taka að sér varðandi þá eldri borgara sem höfðu verið á Landakoti. Er Grund vondur einkaaðili eða góður? Það væri fróðlegt að heyra það frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem vill gera þennan greinarmun.

Fyrir mér skiptir þetta engu máli ef markmiðin eru skýr, ef skilyrðin eru uppfyllt, ef ekki er verið að mismuna eftir efnahag, ef við höfum ekki kerfi sem heimilar fólki að kaupa sig fram fyrir röðina. Ég skil ekki andstöðu Vinstri grænna, vinstri manna í þeim flokki, að vera á móti því ef við getum stytt biðlista eins og við gerðum með augasteinana.

Hvernig stendur á því að Vinstri grænir kalla aðra flokka kredduflokka meðan kreddurnar eru með þeim hætti sem þeir tala hér, hv. þingmenn? Það væri mjög fróðlegt að heyra af hverju Vinstri grænir sáu því allt til foráttu þegar samningurinn var gerður við Grund um bætta þjónustu. Ég veit ekki betur en að sú stofnun sé sjálfseignarstofnun sem hefur þjónað samfélaginu vel, sprottin af góðum hug, en Vinstri grænir vildu að sjálfsögðu ekki sjá það.