135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður dregur mig ekki út í einhverja útúrsnúninga. Það eru hans orð en ekki okkar að það séu góðir og vondir einkaaðilar. Það sem ég var að vekja athygli á, og er mjög sérkennilegt, er að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, jafnaðarmaður væntanlega, skuli engan einasta greinarmun sjá á sjálfseignarstofnunum, félagasamtökum, sem ekki reka starfsemi sína í hagnaðarskyni, eru sem sagt „non profit organisations“ ef það má sletta því — ég hélt það væri almennt viðtekið að slíkar stofnanir eru allt annar hlutur heldur en einkaaðilar sem reka starfsemi sína í gróðaskyni og taka arðinn út úr rekstrinum.

Áttar hv. þingmaður sig ekki á því að svolítill munur sé á þegar SÁÁ eða SÍBS nota alla veltu sína og ef einhver afkoma er til áframhaldandi uppbyggingar í þágu málaflokksins en draga hana ekki út úr rekstrinum til þess að fitna á því sjálfir og svo aftur hinu sem hér er verið að leggja drög að?

Hv. þingmaður (Forseti hringir.) sér greinilega enga leið til að stytta biðlista eða bæta úr vandamálum í heilbrigðiskerfinu nema að gera það í gegnum einkarekstur. Það er mjög athyglisvert. Var ekki hægt (Forseti hringir.) að veita meira fé til þeirra opinberu stofnana sem voru fjársveltar og gátu ekki unnið á biðlistunum þess vegna?