135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:06]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski orðin lítil kennslustund í rekstri heilbrigðisþjónustu fyrir hv. þm. Bjarna Harðarson. Það er náttúrlega verið að tala um að farið verði hægt í sakirnar við að koma sjúkratryggingastofnun í fullan gang varðandi útboð og annað sem undir hana heyrir. Það er líka verið að kostnaðargreina, það tekur langan tíma þannig að þótt þetta frumvarp verði að lögum nú á næstu dögum tekur það tíma fyrir sjúkratryggingastofnun, sem er fyrst að fara af stað núna, að komast í gang. Þetta tekur því allt saman tíma og fara verður hægt í sakirnar. Það verður ekkert rasað um ráð fram því að við fengum þær leiðbeiningar og lærum af reynslu Svíanna að við eigum að stíga hægt og rólega til jarðar í þessum efnum. Það var einmitt það sem ég var að tala um en ekki að farið væri hægt í sakirnar í einhverri einkavæðingu.

Varðandi tal mitt um einkavæðingu var ég að benda á að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa hrópað hér einkavæðing, einkavæðing, einkavæðing, en það er ekki það sem er hér á ferðinni, alls ekki. (BjH: Markaðsvæðing.) Kannski má segja að það komi inn samkeppni um heilbrigðisþjónustu sem mun auðvitað skila sér í hagkvæmari rekstri eins og sýndi sig með augasteinaaðgerðirnar sem ég benti hér á. Augasteinaaðgerð hjá sérfræðingum úti í bæ kostar u.þ.b. þriðjung af því sem hún kostar inni á Landspítala. Það sýnir sig því strax að þarna er verið að nýta hagkvæmni þess að bjóða þetta út og síðan að minnka þá um leið bið sjúklinganna sem er líka hagkvæmt fyrir hvern og einn sjúkling. (Gripið fram í.)