135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:59]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil halda áfram umræðu um efnahagsmál og mér þykja nokkuð sérkennilegar þær fullyrðingar að aðstæður erlendis, á erlendum mörkuðum, sé það sem veldur háum vöxtum Seðlabanka. Seðlabankinn er ekki undir náttúrulögmálum heldur er hann stofnun sem er stjórnað af fólki og það tekur sjálfstæðar ákvarðanir og í sumum tilfellum rangar.

Ég fullyrði hér að ríkisstjórn Íslands og sú stefna sem hún hefur fylgt frá valdatöku núverandi nýju stjórnar hefur verið mjög andstæð því markmiði að stuðla að hagvexti þar sem hér hefur bæði á samdráttarskeiði verið haldið uppi hávaxtastefnu sem er í rauninni afleit hagfræði og í annan stað þá stuðlaði ríkisvaldið með samþykkt síðustu fjárlaga, sem voru mjög bólgin, að því að efla verðbólguna.

Á þeim tíma töluðum við framsóknarmenn fyrir því að fjárlög væru aðhaldssöm en þess í stað væri hinum mikla afgangi ríkissjóðs varið til þess að vinna móti verðbólgunni og það er hitt atriðið sem ríkisvaldið getur gert. Það eru mjög athyglisverð ummæli sem komu fram hjá forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í útvarpsviðtali um helgina, í byrjun vikunnar var það víst, þar sem hann benti á vegna aðgerða Bandaríkjamanna í íbúðalánasjóðakerfi þar, að einmitt á tímum eins og núna er virk hagstjórn mjög mikilvæg. Gunnar Haraldsson er mjög penn í orðavali um þetta en það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að hann væri í raun og veru að vísa til þess að það sem okkur vantaði hér á landi væri virk hagstjórn, einmitt á erfiðum tímum eins og núna.

En það er fyrst og fremst þetta tvennt sem ríkisvaldið hefur gert, það er varðandi vextina og verðbólguna. Hin hugmyndin, þ.e. að hér væri hægt að efla hagvöxt með því að taka upp umræðu nú um inngöngu í (Forseti hringir.) Evrópubandalagið er barnaskapur sem ekki tekur því að sé ræddur hér í pontu Alþingis.