135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég vil bara taka það fram að við munum auðvitað styðja þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur lagt til í þessu máli. Við erum sátt við að þarna skuli þó tekið eitt skref í rétta átt.

Varðandi ummæli réttarfarsnefndar þá sat ég þessa fundi líka. Mér fannst þeir að einhverju leyti snúast um það hvort lögreglan yrði hugsanlega rög við að beita slíkri heimild. Fram kom í máli lögreglunnar að hún væri ekki sammála því og taldi það vera fljótvirkara að hún fengi heimildina vegna þess að hún væri á vettvangi og vissi hvað væri að gerast. Hún væri því ef til vill meira í tengslum við það sem á sér stað eða við þær aðstæður þar sem úrræðunum er beitt.

Fleiri hæstaréttarlögmenn sem tjáðu sig um þessi mál og voru ekki alveg sammála þessu þannig að ég held að þetta sé svolítið tvíbent. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að breytingin muni ekki seinka málsmeðferð.