135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:28]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að allir hér, sama í hvaða flokki þeir standa, séu sammála um það að þetta úrræði, nálgunarbann, þarf að vera skilvirkt og ná tilgangi sínum, sem er fyrst og fremst að vernda þolendur í svona málum, hvort sem það er heimilisofbeldi eða annað ónæði sem viðkomandi verður hugsanlega fyrir. Því er auðvitað ekki að neita að þetta úrræði hefur, eða framkvæmd þess, eða jafnvel lögin verið talsvert gagnrýnd. Auðvitað vilja allir auka vernd þolenda og það er auðvitað grunnskylda okkar sem yfirvalds að tryggja öryggi einstaklinganna, tryggja þeim friðhelgi einkalífs og þegar viðkomandi einstaklingur verður annaðhvort fyrir beinu ofbeldi heima hjá sér eða látlausu ónæði eða áreiti þarf lagaramminn að vera með þeim hætti að réttur hans til friðar og öryggis sé tryggður.

Við í allsherjarnefnd ræddum nokkrar leiðir til að bæta þessi lög en það verður auðvitað að viðurkennast að það voru ýmsar skoðanir á því hver væri eiginlega vandinn. Sumir sögðu að vandinn væri lögin sjálf, aðrir bentu á að lögreglan væri of treg til að beita þessu úrræði og enn aðrir bentu á dómstólana, sögðu að þeir væru of strangir í túlkun sinni. Það er því ekkert ljóst í mínum huga hver vandinn er og það undirstrikar nauðsyn þess að við þurfum að skoða þetta mjög vel og skoða sérstaklega þá reynslu sem við höfum af þessu úrræði hér á landi en það hefur einfaldlega ekki verið gert. Við kölluðum ítrekað af vettvangi allsherjarnefndar eftir tölulegum staðreyndum um þessa þætti og þeir fengust ekki vegna þess að slík skoðun hefur ekki farið fram.

Sömuleiðis höfum við ekki greinargott yfirlit um hvernig nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa gert þetta. Það er vísað í frekar stuttu máli til þess hvernig þetta er gert á hinum Norðurlöndunum en ef menn ætla að taka einhver skref í löggjöf þarf þetta allt að vera fyrir hendi.

Ég skal alveg viðurkenna það og hef svo sem gert það annars staðar að ég hef talið það skynsamlegt að færa ákvörðunarvald í þessum efnum frá dómstólum til lögreglu. Það voru flestir umsagnaraðilar sem kölluðu eftir þeirri breytingu og mér fannst þung rök hníga til þess að það væri skynsamlegt, að það mundi stytta málsmeðferðina sem hefur verið undirtónn margra sem hafa verið að gagnrýna þetta mál. Ég skal líka viðurkenna það og vera ærlegur með það að ég hikaði í þeirri afstöðu minni þegar þungavigtarlögfræðingar og réttarfarsnefnd komu með ný sjónarmið sem ég hafði ekki heyrt áður og ég efa að nokkur þingmaður hafi heyrt þau áður um að þetta mundi hugsanlega hafa þær afleiðingar að málshraðinn mundi lengjast. Þarna voru menn með efasemdir sem lutu t.d. að því að viðkomandi gerandi eða meintur gerandi fengi andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögunum. Þetta var nýr punktur í umræðunni og ég hef a.m.k. ekki heyrt nokkurn þingmann benda á þennan punkt en þetta gerðu þeir sem sitja í réttarfarsnefnd sem, eins og allir þingmenn vita, er ekki bara einhver nefnd úti í bæ heldur nefnd sem hefur haldið utan um þetta lagasvið lengi. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti ef við ætlum að hlaupa í breytingar á sama tíma og við fáum svona upplýsingar. Það getur vel verið að þetta eigi ekki við rök að styðjast, málflutningur þungavigtarlögfræðinga sem eru í þessari nefnd, en við fáum það ekki á hreint fyrr en við förum í slíka skoðun sem við erum að kalla eftir í nefndaráliti meiri hlutans.

Mér fyndist það slæmt ef við mundum vera sammála um að taka þessa breytingu — sem ég var með nokkuð sterka skoðun fyrir að væri skynsamleg, að færa valdið frá dómsmálaráðuneyti til lögreglu, ef þetta væri skref til baka. Ég sé í breytingartillögu frá vinstri grænum að þeir gera ráð fyrir að valdið fari til lögreglu ef ég les breytingartillögurnar rétt, en þá spyr ég: Hvað ef þetta hefur þær afleiðingar að málshraðinn lengist og þyngist?

Hér sé ég í breytingartillögum frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur ekkert minnst á andmælaréttinn, hvernig á að uppfylla hann. Hér hefur nefnt og sumir gestir nefndu það að andmælarétturinn gæti hugsanlega verið fólginn í dómstólaleiðinni, þ.e. að menn geti borið þennan ágreining undir dómstóla eftir á. Ég tel það vera frekar langsótta skýringu ef andmælaréttur stjórnsýslulaga gildir. Það er grundvallarregla í stjórnsýslulögunum og ég óttast það, ef ég á að taka mark á réttarfarsnefnd, að breytingartillaga vinstri grænna sé jafnvel skref til baka vegna þess að þau taka t.d. ekki afstöðu til þess beinlínis að aftengja stjórnsýslulögin eins og við ræddum talsvert í allsherjarnefndinni, en það hefði verið ein leið, en vinstri grænir gerðu t.d. ekki ráð fyrir því.

Þetta er því mín afstaða hvað þetta varðar að við eigum að vanda okkur og fara aðeins varlega fyrst þessar efasemdir koma fram. Auðvitað útilokar þetta ekkert hugsanlegar breytingar í framtíðinni í þá átt að færa valdið frá dómstólum til lögreglu en flestir ef ekki allir gestir okkar í allsherjarnefndinni áttu eitt sameiginlegt, þeir kölluðu eftir frekari gögnum um málið, frekari gögnum um framkvæmdina, kölluðu eftir úttekt á þessu úrræði, og það erum við að gera núna í allsherjarnefndinni.

Austurrísku leiðina hefur borið á góma í þessari umræðu og sömuleiðis hef ég verið þar mjög skilningsríkur á það úrræði og hef álitið það vera úrræði sem við ættum að skoða mjög alvarlega, en það verður auðvitað að viðurkennast, og ég veit að hv. þm. vinstri grænir vita það, að við þurfum að undirbúa það skref betur. Ég og hv. þingmenn í Vinstri grænum erum oft samferða í þessum málaflokki og ég vona að við getum verið það áfram. Við vitum það að austurríska leiðin hefur ekki fengið neina sérstaka umfjöllun í allsherjarnefnd. Þingmál um austurrísku leiðina hefur t.d. ekki verið lagt fram á þessu þingi þar sem eru nýir þingmenn í allsherjarnefnd. Það liggur fyrir breytingartillaga um austurrísku leiðina, ég veit það, en þetta mál hefur ekki farið sem slíkt t.d. almennt í umfjöllun á vettvangi nýrrar allsherjarnefndar með öllum þeim gestum og umsagnaraðilum sem við köllum alltaf eftir. Allir þingmenn í þessum sal vita hvernig málsmeðferð svona mála fer fram og það skiptir máli að fá öll sjónarmið fram.

Ég tek eftir því að í fylgiskjölum nefndarálits frá minni hluta allsherjarnefndar er bara vísað í tvo umsagnaraðila sem draga fram kosti þess að taka beri upp austurrísku leiðina en auðvitað veit maður það og hv. þingmenn vita það að það eru fjölmargir aðrir hagsmunaaðilar sem hafa skoðanir á þessu og sú vinna er einfaldlega eftir. Þetta hefur verið þingmannamál í mörg ár og ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að halda þessu máli á lofti, ég er ekkert að gera lítið úr því enda hef ég skilning á þessu úrræði og hef talið það koma mjög alvarlega til greina ef við ætlum að reyna að ná tökum á þessum vanda, en það skiptir miklu máli að við vöndum lögin. Þegar kemur loksins að því að breyta lögunum stöndum við frammi fyrir því að lagasetningin þarf að vera vönduð, ákveðið ferli þarf að eiga sér stað með umsagnatímafresti og samtölum við hagsmunaaðila og gesti og þá sem láta sig þessi mál varða. Þetta er bara einfaldlega eftir.

Við höfum ekkert fengið yfirlit yfir hvernig nákvæmlega þetta er gert á hinum Norðurlöndunum, austurríska leiðin. Framsögumaður minni hluta minntist einmitt á það sjálf að við hefðum fá gögn í allsherjarnefnd um þetta og við höfum það, við höfum ekkert sérstaklega mikið af gögnum um austurrísku leiðina. Við höfum þingmannamál hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur en okkur vantar meira þegar loksins kemur að því að taka skrefið. Þess vegna setjum við í meiri hluta allsherjarnefndar í okkar nefndarálit að þessi úttekt og rannsókn fari fram svo við getum farið að taka afstöðu til þess, svo við getum ekki staðið hérna eftir nokkur ár og sagt, heyrðu, okkur vantar enn þá gögn. Ég tel því að nálgun okkar sem erum í meiri hluta allsherjarnefndar sé mjög jákvæð, hún er jákvæð fyrir baráttufólk þess að taka beri upp austurrísku leiðina, að við séum að kalla eftir þessum gögnum. Ef reynslan er svona góð eins og þeir draga upp á Norðurlöndunum, ef þetta vekur engan vafa um réttindi gerandans, ef svo má segja, þá hljóta þeir að vinna þá röksemd þegar kemur að því.

Núna er ekki tímabært að taka þetta skref af því að okkur vantar gögnin. Það er alveg hægt að gagnrýna allsherjarnefnd og okkur sem sitjum í meiri hlutanum, af hverju fór hún ekki að finna gögnin o.s.frv., en það hefur einfaldlega ekki verið gert eins og allir hér vita og það má líka alveg færa rök fyrir því eins og stendur í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar varðandi úrræðið nálgunarbann og austurrísku leiðina, þetta þarf ekki endilega að vera nátengt, ef svo má segja, þ.e. okkar umfjöllun um nálgunarbannið getur alveg verið af öðrum toga en umfjöllun um hina austurrísku leið þó að auðvitað eigi þetta það sameiginlegt að reyna að vernda þolendur heimilisofbeldis.

Ég bind miklar vonir við það að dómsmálaráðuneytið fari í skoðun á þessu tvennu, annars vegar á nálgunarbanninu og að við fáum reynsluna og þá tölfræði og þá norrænu löggjöf sem við viljum helst líta til, og sömuleiðis með austurrísku leiðina, að við komumst aðeins áfram með þann mjög spennandi kost sem austurríska leiðin er. Núna erum við bara ekki í stakk búin til að taka þessi skref og held að hv. þingmenn Vinstri grænna skilji þetta sjónarmið eða ég vona að þeir skilji þetta sjónarmið þó að þeir tefli fram þeirri breytingartillögu að við tökum skrefið núna strax.

Þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur hér fram á nálgunarbannið bæta allar lögin að mínu mati talsvert. Við erum í fyrsta skipti að setja tímafresti í lögin, tímafresti gagnvart þeim tíma sem lögreglan hefur til að taka ákvörðun um hvort sækja beri um nálgunarbann eða ekki. Það er enginn tímafrestur núna, þegar frumvarpið kom til okkar voru settar tvær vikur, við erum að stytta það í þrjá sólarhringa. Þetta skiptir máli vegna þess að einn af gagnrýnispunktunum á þetta úrræði var að það liði of langur tími, of langur tími hjá lögreglu.

Þessu tengt var sömuleiðis sett inn í frumvarpið þegar það kom til okkar nýmæli varðandi tilkynningarskyldu til þeirra sem hafa gert kröfu um nálgunarbann þannig að einstaklingur, þolandinn eða réttargæslumaður eftir atvikum, fái tilkynningu um ef lögreglan hafnar því að fara til dómstóla með þessa kröfu þá viti réttargæslumaðurinn og þolandinn það mætavel og geti síðan kært þá ákvörðun. Það er því líka nýmæli að hér er opnað fyrir kæruleið, stjórnsýslukæru, ef lögreglan hafnar eða ef lögreglunni þykir ekki efni til að bera kröfuna fram. Hér er því verið að bæta lögin talsvert.

Við erum einnig að taka út orðið „rökstudd“ úr 1. gr. og að mínu mati skiptir það máli, það setur annan blæ, í staðinn fyrir að það þurfi að vera rökstudd ástæða að viðkomandi ætli að fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem á í hlut þarf einungis að vera „ástæða“. Það getur vel verið að fólki finnist þetta vera léttvæg athugasemd en ég held að þetta geti samt haft ákveðin áhrif á framkvæmdina sem ég vona að verði til batnaðar.

Síðan erum við í meiri hlutanum — og ég heyri að minni hlutinn tekur undir þær breytingartillögur, ef ég skildi minni hlutann rétt — að setja inn sérstaklega í lögin að „nú skal líta til framferðis þess, sem krafist er að sæti nálgunarbanni, á fyrri stigum.“ Á mannamáli er það þannig að nú ber að líta á með beinum hætti og það er komið í lög að sé um að ræða t.d. heimilisofbeldi, þolandinn er kominn út af heimilinu, þá beri að líta til þess ofbeldis sem átti sér stað áður en t.d. sambúð lauk. Þetta er grundvallaratriði í mínum huga. Við sjáum að í greinargerð með frumvarpinu þegar lögin voru sett var komið inn á þetta en það er miklu meiri þungi í þessu þegar við erum búin að setja þetta í lögin þannig að dómstólar verða að fara eftir þessu, þ.e. að líta til framferðis viðkomandi þegar kemur að mati á hvort það eigi að setja nálgunarbann eða ekki.

Að lokum erum við að setja inn hagsmunamatið og þetta skiptir máli. Forsvarsmenn, réttarfarsnefnd tóku sérstaklega undir það þegar þeir voru spurðir, að þetta hefði efnislega þýðingu því að þetta var ekki eitt af skilyrðum um setningu nálgunarbanns, þetta hagsmunamat. Auðvitað finnst manni kannski sjálfsagt að dómstólar fari hvort sem er í þetta hagsmunamat en svo er ekki skilningur þess lögfræðings sem talaði fyrir réttarfarsnefnd. Því held ég að þetta sé einnig gríðarlega mikilvægt því að auðvitað eru öll svona úrræði og allar ákvarðanir bundnar hagsmunamati. Fyrir mér er nálgunarbann yfirleitt mjög væg skerðing á frelsi viðkomandi í ljósi þeirra hagsmuna sem við erum að verja. Við erum að reyna að verja friðhelgi einkalífs, tryggja öryggi borgaranna, það er frumskylda okkar sem stjórnvalds. Þegar tvenn réttindi rekast á þurfum við að fara í gegnum þetta hagsmunamat og það er beinlínis komið núna í lögin að það beri að gera. Í ljósi þess hversu vægt nálgunarbannsúrræðið er eða hversu væg skerðing það er yfirleitt, nálgunarbannið, t.d. það að viðkomandi megi ekki koma nær en 50 metra frá Kvennaathvarfinu er nú ekkert sérstaklega mikil skerðing fyrir viðkomandi í ljósi þess öryggis sem viðkomandi þolandi þarf á að halda. Þetta eru jákvæð skref að mínu mati en ekki, eins og ég segi, einhver lokaskref. Við erum ekkert að loka umræðunni, hvorki um nálgunarbann né austurrísku leiðina og ég ítreka það enn og aftur.

Að lokum við ég nefna það að við höfum náð talsverðum árangri í þessum málaflokki eins og allir þingmenn sem nú eru að hlusta vita. Við erum búin að setja í fyrsta skipti í lögin sérstaka refsiþyngingarástæðu í heimilisofbeldismálum. Það var ekkert í hegningarlögunum. Við settum í sakamálalögin núna í vor sérstakt ákvæði um að þolendur í heimilisofbeldi eigi rétt á réttargæslumanni. Það var ekkert áður. Svo erum við búin að breyta talsvert kynferðisbrotakafla hegningarlaga, eins og þingmenn vita, á síðasta kjörtímabili var skilgreiningu á nauðgun breytt. Við settum lágmarksrefsingu, ef ég fer inn í málaflokkinn í heild sinni, við settum lágmarksrefsingu fyrir kynferðisafbrot gegn börnum. Við erum örugglega eina landið í heiminum sem hefur alvarleg kynferðisafbrot gegn börnum ófyrnanleg. Þetta eru allt atriði sem við höfum náð saman í gegn á síðasta kjörtímabili og ég vona að við náum að halda áfram að vera samtaka um næstu skref því að þetta er málaflokkur sem lokast aldrei. Það eru enn þá talsvert mörg álitaefni og við komumst nær því marki sem allir stefna að, að tryggja öryggi eins vel og kostur er í því ofbeldisumhverfi sem margar konur og börn búa við, með því að fá þessar úttektir gerðar og ég bind miklar vonir við að það gerist hratt og vel af hálfu ráðuneytisins svo að við fáum þetta mál aftur inn á okkar borð og getum þá farið að huga að næstu skrefum.