136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er vandaverk að tjá sig um það frumvarp til fjárlaga sem liggur núna fyrir þinginu því að þeir óvissutímar sem uppi eru gera það að verkum að mjög erfitt er að ráða í hvernig endanleg fjárlög ársins 2009 munu líta út.

Ef við rifjum upp árið í fyrra þegar ríkisstjórnin lagði fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp vöruðum við stjórnarandstæðingar ríkisstjórnina mjög við því að boginn væri allt of hátt spenntur, allt of spenntur í ljósi þess að útgjaldahlið fjárlaganna hækkaði yfir 20% á milli fjárlagaára. Ríkisstjórnin gaf í sína málaflokka yfir 20% útgjaldaaukningu en reiknaði með því að almenn verðlagsþróun yrði einungis 3,8%. Það sá náttúrlega hver einasti maður þá að það gat ekki gengið að ríkisstjórnin ætlaði sér að eyða opinberum fjármunum, auka eyðsluna um yfir 20% en ætlast svo til þess að almenn verðlagsþróun yrði einungis 3,8%.

Ríkisstjórnin var vöruð við því þá strax hvert stefndi í þessum efnum og menn voru svo sem ekkert vinsælir fyrir þann talsmáta á Alþingi að tala fyrir aðhaldi í opinberum rekstri. En þetta er staðreynd og því miður búum við við það núna að miklir erfiðleikar hafa dunið yfir þjóðfélagið, að mörgu leyti vegna erlendra þátta en ríkisstjórnin getur heldur ekki skotið sér á bak við það að vissulega ber hún að hluta til ábyrgð á því slæma ástandi sem nú ríkir í samfélaginu. Vextir hafa aldrei verið hærri. Stýrivextirnir eru yfir 15%, sem ekkert fyrirtæki í landinu getur staðið undir til lengri tíma, verðbólgan hefur ekki verið hærri síðan fyrir þjóðarsáttarsamningana og stefnir óðfluga í það, að mér sýnist, að fara vel yfir 20% haldi krónan áfram að falla. Þetta eru alvarlegu staðreyndirnar fyrir almenning í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu og fyrir íslenskt efnahagslíf í heild sinni.

Þess vegna hefði ríkisstjórnin átt bregðast við og nýta sér það tæki sem Alþingi veitti á vormánuðum þegar Alþingi Íslendinga veitti ríkisstjórninni heimild til að auka varagjaldeyrisforða Seðlabankans um 500 milljarða. Staðreyndin er sú að 300 milljarðar af þessum 500 liggja enn ónýttir og það er tíu sinnum dýrara núna fyrir ríkisstjórnina að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans en um miðjan maí síðastliðinn, tíu sinnum dýrara. Þetta mun ríkissjóður þurfa að greiða fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, því miður. Þetta er mjög alvarlegt mál og í raun og veru er hálfsorglegt að sjá hvernig markvisst aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þar sem ekkert er gert í mjög mörgum stórum málum er að leika ríkissjóð Íslands. Og í því frumvarpi sem við ræðum nú sem er mjög erfitt að ræða um vegna þess hversu framtíðin er óljós er gert ráð fyrir að hann verði rekinn með 57 milljarða kr. halla en það er margt sem bendir til að sú spá sé í bjartsýnna lagi. Ég bendi á að spáin fyrir árið í ár hljóðaði upp á það að afgangur ríkisins ætti að vera um 39 milljarðar en samkvæmt nýjustu útreikningum fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir einungis 3 milljarða kr. afgangi á þessu ári. Í raun og veru hefur svo margt breyst í efnahagsumhverfi þjóðarinnar síðan þeir útreikningar voru gerðir að reikna má með hallarekstri á árinu 2008, því miður.

Maður veltir fyrir sér forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar heimilin og fyrirtækin í landinu eru að reyna að láta enda ná saman og sinna ákveðnu aðhaldi í sínum rekstri vegna þess að á tímum sem þessum þurfa allir að taka til í eigin ranni. Nú eru erfiðir tímar og það eru erfiðir tímar fram undan, allir eru sammála um það hvar í flokki sem þeir standa. Það var ljóst í fjárlagaumræðu ársins 2008 í hvað stefndi, við framsóknarmenn vöruðum við því. Allir greiningaraðilar, Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin, allir sögðu ríkisstjórninni að það væri komið æpandi gult ljós á stöðu efnahagsmála og hún var hvött til að sýna aðhald. En hvað gerði ríkisstjórnin þá? Hún jók eins og áður sagði útgjaldaramma fjárlaga um 20%. Utanríkisráðuneytið fékk alveg sérstaka meðhöndlun þá, milli 20 og 30% útgjaldaauki var til utanríkismála á árinu 2008. Og ef við horfum á aðaláhersluefni ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2009 er gert ráð fyrir að útgjöld til utanríkisráðuneytisins aukist um 28,3%, að útgjöld til utanríkisþjónustunnar, utanríkisráðuneytisins hækki um 28,3% á milli áranna 2008 og 2009. Er ríkisstjórnin að taka til í sínum ranni, er hún að sýna aðhald á erfiðum tímum? Ég segi nei. Í raun og veru bendir margt til þess að útgjöld til utanríkisþjónustunnar muni aukast miklu meira en um 28,3%.

Ef við flettum upp á blaðsíðu 20 í fylgiritinu Stefna og horfur með frumvarpi til fjárlaga og skoðum hvaða forsendur liggja fyrir frumvarpi til fjárlaga árið 2009 þá er gert ráð fyrir að gengisvísitalan á næsta ári — og haldið ykkur nú — verði 144,5 stig. Í dag er gengisvísitalan 206,7 stig. Og ætla menn, án þess bara að springa úr hlátri, að halda því fram að meðaltalsgengisvísitalan á næsta ári verði 144,5 stig? Í hvaða veruleika lifir hæstv. ríkisstjórn? Ég er viss um að ekki er hægt að finna einn einasta aðila fyrir utan ríkisstjórn Íslands sem spáir því að meðaltalsgengisvísitala krónunnar á næsta ári verði 144,5 stig. Og hvað þýðir það ef gengisvísitala krónunnar verður t.d. 160 eða 170 stig? Það mun þýða sjálfvirkt að útgjöld til sendiráðanna, til utanríkisþjónustunnar, aukast í hlutfalli við það. Að öllu óbreyttu munu því framlög til utanríkisþjónustunnar aukast um vel yfir 30% ef vísitala krónunnar verður 160–170 stig.

Er þetta nú sú forgangsröðun sem m.a. Samfylkingin boðaði í aðdraganda síðustu kosninga, að á tveimur árum skuli hækkun til utanríkisþjónustunnar vera komin yfir 50%? Hafa kjör þjóðarinnar og almennings í landinu aukist um 50% á tveimur árum? Maður hlýtur að spyrja sig: Á hvaða vegferð er ríkisstjórnin? Hver er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Er hún gagnvart eldri borgurum og öryrkjum? Nei. Er hún gagnvart námsmönnum? Nei. Þess vegna er hlálegt, hæstv. forseti, að lesa fyrstu setninguna í Stefnu og horfum sem fjármálaráðuneytið gefur út þar sem segir, með leyfi forseta.

„Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er hagkerfið tekið að færast nær jafnvægi á ný.“ — Ég endurtek þetta, með leyfi forseta: „Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið um langt árabil er hagkerfið tekið að færast nær jafnvægi á ný.“

Hvert er þetta jafnvægi sem við erum að tala um hér? Það er ekkert jafnvægi í íslensku samfélagi. Verðbólgan hefur ekki verið hærri í 20 ár. Stýrivextirnir eru að gera út af við atvinnulífið. Ég spyr, á hvaða vegferð er ríkisstjórnin? Og maður hlýtur jafnframt að spyrja sig við 1. umr. fjárlaga, hvar eru ráðherrarnir í ríkisstjórn Íslands? Ekki einu sinni fjármálaráðherra situr undir þessari umræðu. Varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, má þó eiga það að hann stendur hér og hlustar á þessa umræðu. En þegar allt er að sigla, ég veit ekki hvað við eigum að nota stór orð — og sé ég nú að hæstv. ráðherra er kominn hér í gættina sem er ágætt en það vantar hina 11 ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessa umræðu — þegar við horfum upp á mestu óvissu á seinni tíð í ríkisfjármálum, þá er ríkisstjórnin ekki viðstödd umræðu um fjárlögin. Það er vissulega alvarlegt mál því að hún hefur lagt þetta frumvarp fram. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram og nefndarmanna í fjárlaganefnd Alþingis bíður mjög vandasamt verkefni við að ráða í framtíðina og reyna að sýna fram á að aðhalds verði gætt eins og hægt er og kostur er í þeirri vinnu sem fram undan er.

Hæstv. forseti. Ég hef einungis setið fimm ár á þingi og hef náttúrlega aldrei séð annað eins fjárlagafrumvarp og ég held ekkert (Forseti hringir.) okkar því að við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er einfaldlega þannig. En það er mjög eftirtektarvert að sjá hvar forgangsröðun ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) liggur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009.