136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:18]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir ræðu sína. Ég get verið sammála henni í mörgu sem lýtur að framfaramálum en ég verð líka að taka fram að það á við um hennar ræðu eins og hæstv. fjármálaráðherra viðhafði um ræður manna í morgun — að vísu ekki mína ræðu sérstaklega — að í henni var ekki mikil umfjöllun um frumvarpið sjálft. Þess sakna ég og því langar mig til að víkja að tveimur atriðum varðandi þetta frumvarp.

Annað atriðið er Vatnajökulsþjóðgarður sem hv. þingmaður vék að og við erum sammála um að er mikilvægt verkefni. Ég hef margoft áður vakið athygli á því hér í ræðustól að það skiptir máli hvar Vatnajökulsþjóðgarður er byggður upp; hvort hann er byggður upp við Vatnajökul eða Lækjartorg. Það er algjörlega valkvætt og undir stjórnvöldum komið. Því miður hefur afstaða núverandi ríkisstjórnar — og þar með hlýtur það að vera afstaða sem stjórnarflokkarnir skrifa undir — verið að uppbygging þessarar merku stofnunar verði í rauninni fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu. Einu heilsársstörfin sem mér er kunnugt um að hafi verið stofnuð ný við þennan þjóðgarð eru hér í Reykjavík — hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er ekki rétt — en úti í gömlu þjóðgarðssvæðunum eru vissulega til eldri störf.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja um. Það steðjar mikil vá að íslenskum heimilum og ekki síst ungu fólki. Það steðjar líka mikil vá að fyrirtækjunum og þau verða að skera hressilega niður ekki síður en unga fólkið. Ég spyr þess vegna hv. þingmann hvort hún sé sátt við að ekki virðist sama eiga að ganga yfir ríkisstofnanir. Eins og ég vakti athygli á í morgun er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstofnunum sé bættur upp bæði (Forseti hringir.) verðbólgukostnaður og kostnaður við gengislækkun.