136. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[17:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er dapurlegt, það er þyngra en tárum taki, að til þeirra hluta skuli nú þurfa að koma sem raun ber vitni. Þetta hefði að sjálfsögðu aldrei átt að fara svona. Þetta þurfti aldrei að fara svona. En við stöndum frammi fyrir neyðarkostum og það er ekkert annað að gera en að lágmarka skaðann. Lágmarka skaðann fyrir almenning, lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóðarhagsmuni og lágmarka skaðann fyrir framtíðina — fyrir börnin okkar og barnabörnin, fyrir komandi kynslóðir þannig að þær beri sem minnstan skaða af þeirri ráðsmennsku sem við núlifandi kynslóð ráðamanna og viðskiptalífs berum ábyrgð á.

Ég gæti sagt hér margt um vinnubrögð, ég gæti sagt hér margt um seinagang, ég gæti sagt hér margt um tilgangslausa kaffidrykkju yfir einskisverðum hlutum borið saman við það sem nú er í húfi. Ég gæti sagt margt um andvaraleysi. En það þjónar litlum tilgangi nú.

Gagnvart þeim víðtæku heimildum, því neyðarvaldi sem menn ætla nú að taka sér með lögum til að skipa fyrir um hluti í fjármálakerfinu segi ég, og það skal vera alveg skýrt: Hér verða margir að axla ábyrgð og sæta ábyrgð, viðskiptalegri og siðferðislegri ábyrgð, lagalegri ábyrgð og pólitískri ábyrgð, og eftirlitsaðilar eru hér ekki undanskildir. Margir munu verða fyrir miklum skakkaföllum, það er óumflýjanlegt. Og þá skulum við líka fara ofan í saumana á því: Eru aðrir, og hafa aðrir, á sama tíma verið að hirða burtu mikla fjármuni og koma þeim jafnvel fyrir á fjarlægum eyjum? Getum við náð til þeirra? Eigum við ekki að reyna það? Er það ekki sanngjarnt? Jú, við eigum að gera allt sem við getum til þess að tjón almennings verði sem minnst og hinir sem ábyrgðina bera verði að sæta henni.

Það eru ýmis atriði í frumvarpinu sem þurfa skýringa við, því að það hefur verið samið í miklu hasti. Það mun verða gert í nefnd eftir því sem kostur er. Ég vil segja um eitt tiltekið efnisatriði frumvarpsins sem varðar heimildir Íbúðalánasjóðs til að endurfjármagna lán almennings með veði í íbúðarhúsnæði sem veitt hefur verið af viðskiptabönkum og sparisjóðum — að það atriði liggur nú þegar fyrir í frumvarpi fluttu af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við styðjum það því að sjálfsögðu að Íbúðalánasjóður fái þessar heimildir, og ég segi enn: Mikið óskaplega mega menn vera þakklátir fyrir að eiga Íbúðalánasjóð, að hann er til staðar og getur núna tekist á við vandann með okkur. Hvað segja spekingarnir sem hafa sem ólmast viljað hann feigan hér á undanförnum missirum?

Hugur manns er á þessum tíma fyrst og fremst hjá þjóðinni. En ég verð að segja að hugur minn er líka hjá mörgum almennum starfsmönnum í þeim fyrirtækjum sem hér eiga í hlut, starfsmönnum sem hafa unnið störf sín af trúmennsku og samviskusemi. Og það ber líka að hafa í huga að við berum ábyrgð gagnvart þeim eins og öllum öðrum sem saklausir verða fórnarlömb þessara óskapa.

Nú er það svo, herra forseti, að stjórnarandstaðan hefur boðið fram útrétta hönd undanfarna sólarhringa, boðið fram aðstoð sína og í raun setið og beðið. Ríkisstjórnin hefur valið að reyna að gera þetta hjálparlaust þangað til í morgun að við áttum ágætan fund með forustumönnum ríkisstjórnarinnar og aftur eftir hádegið með sömu mönnum og seðlabankastjóra og forstöðumönnum Fjármálaeftirlits. Þetta verða eftirminnilegir fundir og þar voru spilin loksins lögð á borðið og menn horfðust þá loks í augu við hlutina eins og þeir eru en voru því miður, að mínu mati, að mestu leyti fyrirsjáanlegir um miðja síðustu viku. Í ljósi þessa er skýrt að það er ríkisstjórnin sem hefur stýrt verkum og ber hina pólitísku ábyrgð. Þau samskipti sem hún hefur átt við okkur jafngilda því ekki að við séum gengin undir hana með ábyrgð á þessu máli, við munum skoða það og afstaða okkar birtast þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu.

Gríðarleg verkefni eru fram undan því að við erum hér ekki að ljúka verki heldur hefja það. Það verða gríðarleg verkefni fram undan að vinna landið upp úr öldudalnum og vinna úr þessum málum og það mun skipta miklu hvernig mönnum tekst til í þeim efnum. Ég vil láta það koma hér fram strax, og beini þeirri áskorun til ríkisstjórnar og stjórnvalda, að tafarlaust verði settur af stað viðbúnaður til þess að aðstoða almenning, til þess að aðstoða þá sem eiga mikil tíðindi í vændum í tengslum við þetta mál, með svipuðum hætti og við gerðum um daginn þegar jarðskjálftinn reið yfir Suðurland. Ég held að á næstu klukkutímum, að minnsta kosti næstu sólarhringum, verði að opna miðstöðvar þangað sem fólk getur leitað og fengið úrlausn, fengið upplýsingar, fengið svör og fengið ráðgjöf. Þetta þarf að gera strax og fumlaust og slík þjónusta þarf að vera til reiðu út um allt land. Í raun má líkja þessu við efnahagslegar náttúruhamfarir nema þessar eru af manna völdum.

Fleira ætla ég ekki að segja á þessu stigi. Málið mun fara til nefndar og fá þar skoðun eftir því sem kostur er við þessar erfiðu aðstæður. Við munum ekki leggja stein í götu þess að það fái hér skjóta afgreiðslu, enda ekki um annað að ræða, það er ekki annað í boði.