136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt andsvar við ræðu minni. Því fer að vísu víðs fjarri að ég ætli í ræðustóli Alþingis að fara að hanna vegi um landið og segja til um það hvort tilteknir vegir eigi að vera beinir eða bognir, hver hallinn eigi að vera eða hvort upphækkunin skuli vera mikil o.s.frv.

Ég sagði í andsvari við hv. þm. Bjarna Harðarson að ég hefði tekið svo til orða að tala um ferðamannavegi, ég væri ekki viss um að það hugtak væri sérstaklega skilgreint neins staðar. Það sem ég sé fyrir mér er vegur sem þjónar fyrst og fremst ferðamönnum sem leggja leið sína á miðhálendið en hann gegnir ekki endilega hlutverki flutningaleiðar, t.d. fyrir þungaflutningabíla, eins og ég hef þegar sagt.

Við leggjumst að sjálfsögðu ekki gegn því að yfir Kjöl sé gerður góður sumarvegur sem ber umferð fólks en við gerum ekki ráð fyrir því að hann eigi að bera vöruflutninga. Það er sjónarmið okkar. Hvað hann þarf nákvæmlega að vera breiður, hversu mikið uppbyggður eða hvert undirlagið þarf að vera er auðvitað verkfræðilegt úrlausnarefni en ekki pólitískt.

Hvað pólitíkina snertir er hér fyrst og fremst tekist á um hlutverk þessarar samgönguleiðar og þar erum við augljóslega ekki algjörlega samstiga en það er sjálfsagt að taka þá umræðu frekar á vettvangi nefndarinnar.