136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

rannsóknarnefnd til að gera úttekt á fiskveiðiheimildum.

21. mál
[16:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Þetta frumvarp sem hv. þingmenn Frjálslynda flokksins, Grétar Mar Jónsson og Guðjón Arnar Kristjánsson, hafa lagt hér fram fjallar um skipun rannsóknarnefndar til að gera úttekt á umfangi brota á lögum og reglum sem varða fiskveiðiheimildir íslensks sjávarútvegs.

Mér finnst dálítið vel í lagt að bæta við fleiri nefndum, stofnunum eða eftirlitsstofnunum fyrir þessa starfsgrein en nú þegar eru fyrir hendi. Ég leyfi mér að efast um að nokkur einasta atvinnugrein á Íslandi sé í dag undir jafnströngu eftirliti og sjávarútvegur og þá kannski sér í lagi fiskveiðarnar.

Ég minni á að Fiskistofa hefur víðtækt eftirlit með veiðum og vinnslu bæði á sjó og landi. Sjálfur þekki ég það af eigin reynslu og veit að hv. þingmenn og flutningsmenn þessa frumvarps geta vitnað um það sömuleiðis að það eftirlit er mjög strangt. Við sem stýrum skipum til veiða og stundum fiskveiðar erum oft og tíðum með eftirlitsmenn frá Fiskistofu um borð í skipum okkar sem fylgjast grannt með öllu því sem þar gerist sem varðar veiðarnar, sem varðar veiðarfæri, sem varðar vinnsluna og frágang á afla, reyndar öllu því sem nefnt er í þessu frumvarpi og grunur leikur á um að menn fari ekki eftir.

Auk þess að vera iðulega með eftirlitsmenn frá Fiskistofu um borð í skipum á veiðum ber skipstjórnarmönnum, sjómönnum sem liggja undir grun samkvæmt þessu frumvarpi hér um að fylgja ekki settum reglum, þ.e. okkur sem þennan atvinnuveg stunda, að skila til Fiskistofu ítarlegum skilagreinum, mjög nákvæmlega útfylltum og ítarlegum skilagreinum um það hvernig veiðarnar hjá okkur fóru fram, ekki bara hvar við veiddum heldur hvaða fisk við veiddum og hvernig við hanteruðum hann, hvernig við fórum með hann og sömuleiðis hvernig nýtingin á þeim afla var. Ég get fullyrt hér að á þeim skipum sem ég þekki til og á þeim skipum sem ég hef starfað á er farið ítarlega, vandlega og nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum sem Fiskistofa lætur okkur vinna eftir hvað þetta varðar.

Vel má vera að flutningsmenn þessa frumvarps sem báðir eru þekktir skipstjórnarmenn hafi aðra reynslu af þeim skipum sem þeir hafa stýrt á þeim árum sem þeir vilja láta rannsaka, þ.e. 17 ár aftur í tímann. En þá reynslu get ég ekki staðfest með þeim.

Því til viðbótar, ef eftirlit Fiskistofu um borð í skipunum og eftirlit með þeim skilagreinum sem okkur ber að skila til Fiskistofu dugar ekki, eru iðulega eftirlitsmenn frá Fiskistofu við löndun, þegar verið er að landa úr skipum, og fylgjast með því að sá komi afli upp úr skipum sem tilgreindur er á aflaskýrslum og fylgjast náið með því að nýting á unnum afurðum sé samkvæmt því sem upp er gefið. Allt þetta veit ég að flutningsmenn þekkja vel og ekki síður en ég geri.

Í öðru lagi er aukið eftirlit frá Landhelgisgæslu með veiðum og vinnslu um borð í skipum, því miður kannski ekki nóg. Eins og hefur nú borið á að undanförnu hefur ekki verið hægt að halda úti skipum Landhelgisgæslunnar vegna fjárskorts. En við megum búast við því á hverjum degi að varðskip banki upp á og þeir komi um borð í skipin til að fylgjast með því sama og eftirlitsmenn Fiskistofu gera, þ.e. veiðum og vinnslu, hvernig við högum okkur við veiðarnar, hvort veiðarfæri standist þær reglur og þær kröfur sem gerðar eru um þau og svo framvegis.

Landhelgisgæslan hefur einnig á undanförnum árum beitt þyrlum við eftirlit með veiðum. Við sjómenn höfum mátt búast við því sömuleiðis að niður úr þyrlu sígi um borð eftirlitssveit frá Landhelgisgæslunni sem þeir gera orðið iðulega til viðbótar auk þess sem þeir beita síðan flugvélum til þess að fylgjast með að skip séu að stunda veiðar á þeim svæðum þar sem þau mega vera og ekki á þeim svæðum sem þau mega ekki vera á. Landhelgisgæslan er því með aukið og strangt eftirlit við veiðarnar og skráningu á veiðum og vinnslu á aflanum sömuleiðis eins og Fiskistofa gerir auk þess sem eftirlit Landhelgisgæslunnar nær út fyrir verksvið Fiskistofu varðandi skráningar á áhöfn, búnað skipa, skoðun og haffærisskírteini og svo framvegis. En það hlýtur að vera eitt af því sem flutningsmenn frumvarpsins telja að sjómenn liggi undir grun um að vera að brjóta.

Dugi þetta ekki til þá er við löndun fylgst með afla þeim sem kemur upp úr skipum af hafnarvörðum í viðkomandi höfn sem standa vaktina við skipshlið og fylgjast með því að upp úr skipunum komi sá afli sem sagður er vera um borð, hvorki meira né minna. Á því bera þeir ábyrgð. Á hafnarvogunum er síðan tekin úttaksvigtun úr afla svo ég tali um vinnsluskip og svo framvegis. Það er því mjög strangt eftirlit, mjög mikið eftirlit með þessari atvinnugrein, fiskveiðunum, og það mikið að ég tel í raun algjörlega óþarft að ætla að bæta fjórðu eftirlitsstofnuninni við það sem þegar er fyrir. Ég veit að margir ef ekki allir skipstjórnarmenn, gæti ég fullyrt, eru mér sammála um að okkur finnst nú þegar vera komið nóg af því eftirliti sem við þurfum að búa við og það að þurfa að stöðugt að liggja undir grun um að vera að brjóta þær reglur sem okkur eru settar eins og mér reyndar finnst andi frumvarpsins vera, þ.e. að við liggjum undir grun. Spurning vaknar líka þegar frumvarpið er lesið. Þar stendur í greinargerð, með leyfi forseta:

„Allt frá því að svokallað kvótakerfi var tekið upp í íslenskum sjávarútvegi hafa komið fram alvarlegar ásakanir um að reglum þess hafi ekki verið réttilega fylgt.“

Og þær reglur sem tilteknar eru í þessu frumvarpi eru í lögum um stjórn fiskveiða, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands svo einhver dæmi séu nefnd.

Mér þykir augljóst þegar vísað er í lög um stjórn fiskveiða að verið sé að tala um illa eða óviðunandi meðferð á afla sem veiðist, brottkast, svindl á nýtingu og svo framvegis eins og hér hefur verið nefnt. Mér þykir það eiginlega liggja í augum uppi þegar nefnd eru hér sérstaklega lög um fiskveiðar í landhelgi Íslands að sjómenn stundi þar þá eða liggi undir grun um að vera sífellt að brjóta þau lög, vera að veiðum þar sem þeir ekki eiga að vera, brjóta sem sagt landhelgislögin. Ég held að flutningsmenn þessa frumvarps hljóti að búa yfir upplýsingum um ítarleg brot á þessum lögum, þeir hafi vitneskju um að þessi lög séu þverbrotin. Að öðrum kosti held ég að menn leggi ekki fram frumvarp til laga á Alþingi um að reyna að stemma stigu við því. Ég óska eftir því, búi þeir yfir þessum upplýsingum, hafi þeir haldbærar upplýsingar um að sjómenn sérstaklega séu að brjóta lög, þessi tilteknu lög sem eru nefnd í frumvarpinu, að þá upplýsi þeir það hér í þessari umræðu að þeir búi yfir þessum upplýsingum og segi hvaðan þær eru komnar og að þær séu rökstuddar.

Mér þykir sárt sjálfum að þurfa að sitja undir því að flutt sé frumvarp á Alþingi í þessum anda sem beinist í aðalatriðum að mér persónulega, finnst mér sem sjómanni, og starfsfélögum mínum úti á sjó sem ég veit — og fullyrði ég það — að hafa alla tíð reynt að fylgja eftir þeim reglum og lögum sem þeim hafa verið sett. Ég er viss um að fleiri skipstjórnarmönnum og sjómönnum muni sárna að þingmenn sjái ástæðu til að leggja fram drög að frumvarpi sem þessu á Alþingi.

Til viðbótar því sem ég nefndi áðan um eftirlit Fiskistofu sem er mjög ítarlegt, um eftirlit Landhelgisgæslunnar með veiðum og vinnslu sem er mjög ítarlegt og strangt, um eftirlit með löndun og höfnum, þ.e. hafnarverðir og hafnarvogir, má nefna að við búum sömuleiðis við ýmsar takmarkanir úti á sjó varðandi búnað veiðarfæra á veiðisvæðum sem ég veit að flutningsmönnum er báðum kunnugt. Það er ítarlegt eftirlit í gangi með þessari atvinnugrein, mjög ítarlegt eftirlit. Telji hv. þingmenn að auka þurfi eða bæta við það eftirlit þá vil ég gjarnan fá að heyra betri rökstuðning fyrir því en fram kemur í þessu frumvarpi og tel að það hljóti þá að mega nýta þær stofnanir sem fyrir eru í landinu til að auka þetta eftirlit hvort sem það er þá Fiskistofa, Landhelgisgæslan eða að hafnarvörðum og hafnarvogum verið falið þetta eftirlit.

Í greinargerð frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að einstaklingar, t.d. sjómenn, útgerðarmenn, skipstjórnarmenn, fiskverkendur og flutningsaðilar, geti komið á fund nefndarinnar af fúsum og frjálsum vilja til að láta henni í té vitneskju.“

Þegar ég les þetta spyr ég: Hvað þarf til að sannleiksnefndin þessi taki mál upp á sína arma? Er það símtal frá vörubílstjóra sem telur sig vera að flytja annan fisk en hafnarvogin segir honum að hann sé að flytja? Er það símtal frá sjómanni sem telur sig búa yfir vitneskju um að hent sé fiski á einhverju skipi, jafnvel hans skipi? Hvað þarf til að þessi sannleiksnefnd taki mál á dagskrá og afgreiði þau? Það er reyndar tekið fram hérna að henni sé ekki ætlað að fjalla um sekt eða sakleysi þeirra sem á fund nefndarinnar koma eða afla nefndinni upplýsinga um hugsanleg brot. Í 6. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Nefndarmenn og aðrir sem inna af hendi störf í þágu nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu um viðkvæm einkamálefni, þar með talið upplýsingar sem varða einstaka refsiverða verknaði.“

Ég er nú ekki mjög lögfróður maður, virðulegi forseti, en hafi þeir sem á fundi nefndarinnar koma með einhverjum hætti staðið að refsiverðum verknaði þá sé ég ekki í fljótu bragði hvernig nefndin eigi að geta hylmt yfir með þeim um þau mál. Það kann þó að vera. Ég ítreka að ég er ekki lögfróður maður. En mér finnst þetta þó dálítið vafasamt.

Ég ítreka við þessa umræðu um þetta frumvarp um skipun rannsóknarnefndar í sjávarútvegi að ég tel þetta frumvarp óþarft. Mér finnst andinn í því ekki góður gagnvart þeim sem það beinist að, þ.e. aðallega sjómönnum og sér í lagi skipstjórnarmönnum og útgerðum. Ég tel eftirlit með íslenskum sjávarútvegi nægilegt, mjög mikið í raun og veru og mætti frekar draga aðeins úr því heldur en hitt.