136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:56]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við væntum þess eftir yfirlýsinguna frá mannréttindanefndinni frá 12. desember 2007 að gerðar yrðu breytingar. Þegar mannréttindanefndin segir að verið sé að brjóta jafnræðisreglu, að verið sé að brjóta frelsi einstaklinga og að það sé skylda íslenskra stjórnvalda að borga skaðabætur til þessara tveggja sjómanna, eiga íslensk stjórnvöld að gera það en það ætla þau ekki að gera. Sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að borga þessum mönnum bætur. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Þess vegna hvet ég ykkur sem tilheyrið Samfylkingunni og hafið einhverja löngun til þess að virða mannréttindi að leggja á það áherslu í ríkisstjórninni en ekki bara vera að hugsa um sæti, um ráðherrastólana, og þora að gera þá kröfu til samstarfsflokks ykkar að hann virði mannréttindi, snúi ofan af þessu og borgi þær bætur sem mannréttindanefndin leggur til að verði gert. Ég hvet ykkur til að gera þá kröfu að Sjálfstæðisflokkurinn breyti stjórn fiskveiða þannig að menn þurfi ekki að kaupa kvóta og vera leiguliðar hjá sægreifum til margra ára og eins að atvinnufrelsi og mannréttindi allra einstaklinga séu virt í íslenskum sjávarútvegi.