136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Menn óttast fjármagnsflótta úr landi og að stýrivaxtahækkunin sé ákveðin til þess að koma í veg fyrir hann. Í fyrsta lagi mætti spyrja, hvaða fjármagn? Í öðru lagi mætti segja að sé eitthvert fjármagn sem menn óttast að flýi úr landi þá verði að grípa til ráðstafana og tímabundinna ráðstafana til þess að setja takmarkanir á flutning fjármagns úr landi eins og hæstv. utanríkisráðherra lagði til í ræðu sinni fyrr í umræðunni. Ég er sammála að það verði að gera, jafnvel með nokkuð miklum takmörkunum, að minnsta kosti tímabundið vegna þeirrar stöðu sem við erum í. Þar verðum við einfaldlega að grípa til neyðarréttar ef ekki vill betur til og ég tel að við eigum að gera það.

Hv. þingmaður sagði að við mættum enga áhættu taka en að mínu mati erum við að taka verulega áhættu með ákvörðun um stýrivaxtahækkun. Nú kann vel að vera að hv. þingmaður sé ósammála því. En ég tel að við séum að taka verulega áhættu með henni. Það kann að vera að sú leið heppnist og að sjálfsögðu vonumst við til þess að hún skili þeim árangri sem að er stefnt. En það er teflt á tæpasta vað að mínu mati hvað þetta snertir.

Hv. þingmaður svarar mér til baka varðandi gjaldmiðilinn og honum finnst ég ósanngjarn með merkimiða í sinn garð. Það kann vel að vera að það hafi verið ósanngjarnt af minni hálfu. En svona blasti þessi málflutningur við mér engu að síður og hafi þingmanninum þótt það ósanngjarnt þá skal ég bara taka það til baka.

En ég vil þó segja varðandi gjaldmiðilinn og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði: Við höfum aldrei sagt að það eigi ekki að ræða um gjaldmiðilsmál og að gjaldmiðilsstefnan sé ekki mikilvæg. Forustufólk í okkar flokki hefur m.a. skrifað greinar um þau mál þannig að við erum að sjálfsögðu ekki þeirrar skoðunar að gjaldmiðillinn sé óumbreytanlegur eða að það verði ekki að grípa til ráðstafana til þess að styrkja gjaldmiðil okkar, hvort sem það er nú íslensk króna, norsk, færeysk eða eitthvað annað þegar til framtíðar er (Forseti hringir.) litið.