136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir hvert orð hjá hv. þingmanni. Ég vil hins vegar árétta það og undirstrika að það er sannfæring mín að þær áherslur sem Samfylkingin hefur haft, allt frá stofnun sinni, um að við ættum að vera virkir þátttakendur í hinu félagslega samstarfi á þeim markaði sem við störfum á, virkir þátttakendur í því myntbandalagi sem þar er, hefur oft úr þessum ræðustól verið hrópað niður sem töfralausnir eða skammtímalausnir, að það sé ekki svar við vanda dagsins í dag því það sé langtímameðferð.

Við höfum haldið þessu fram allt frá stofnun Samfylkingarinnar og allt frá þingkosningunum árið 1999 eða í nærfellt áratug. Í nærfellt áratug höfum við haldið þessu til haga í allri umræðu og það er orðinn býsna langur skammtíminn sem menn hafa ekki hlustað á þau aðvörunarorð. Í raun og veru vék hv. þingmaður sjálfur að því í ræðu sinni fyrr í dag, sem var efnismikil og málefnaleg eins og hans er von og vísa, að sannarlega væri ein af stærstu orsökunum þess sem við erum að glíma við það sem hann kallaði orðrétt: hina veiku íslensku krónu.