136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

LÍN og námsmenn erlendis.

[10:59]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Já, það er rétt, að mörgu er að hyggja þegar til lengri tíma er litið varðandi sjóðinn. Ég held að í þrengingunum sem við erum í muni álagið á sjóðinn aukast verulega og við verðum að hafa það hugfast nú þegar við förum í frekari stefnumótun gagnvart honum. Ég held að sjóðurinn verði að hafa ákveðið svigrúm til þess að taka á móti aukinni aðsókn — við sjáum strax merki í þá veru — í skólana, bæði háskólana en ekki síður framhaldsskólana. Ég tel að Alþingi hafi borið gæfa til að afgreiða þau lög sem voru samþykkt núna um framhaldsskólana.

Aukin aðsókn er í starfsnám, í iðnnám, og það þýðir að ákveðnar álögur leggjast þá á LÍN því ákveðinn hluti iðnmenntunar er lánshæfur. Yfir þetta allt verðum við að fara, við verðum að gera fólkinu okkar kleift að komast í nám og fjárfesta þannig í framtíðinni.