136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[11:50]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Meðflutningsmenn með þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir og Magnús Stefánsson.

„Alþingi ályktar að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu það verkefni að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.“

Tillagan var áður flutt á 135. löggjafarþingi og flutningsmenn telja að það sé mjög mikilvægt nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að beitt verði markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ein leiðin að því markmiði er að fela Jafnréttisstofu, sem þekkir þessi mál mjög vel í samfélaginu, að annast slíkar aðgerðir. Samhliða því þyrfti að auka fjármagn til Jafnréttisstofu.

Næstu sveitarstjórnarkosningar verða haldnar vorið 2010. Það hefur verið talsverð umræða um að efla þurfi hlut kvenna í þeim kosningum en það er alveg ljóst að þrátt fyrir umræðu í gegnum árin og ýmis átaksverkefni vantar enn þá töluvert upp á að hlutur kvenna í sveitarstjórnum geti talist eðlilegur.

Ég rifja það upp að í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2006 var hlutur kvenna 35,9% og svipaðar prósentutölur má sjá í stjórnum, nefndum og ráðum sveitarfélaganna. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist mjög hægt eins og menn geta séð á öllum tölulegum upplýsingum. Það er líka rétt að minnast þess að síðustu alþingiskosningar skiluðu ekki til baka því hlutfalli sem við höfðum náð á fyrri tíð. Á kjörtímabilinu 1999–2003 voru konur 34,9% fulltrúa á Alþingi en við kosningarnar 2003 varð mikið bakslag og hlutfallið fór niður í 30,2%. Í síðustu kosningum fór prósentutalan aðeins upp á við, upp í 31,7%, en náði ekki fyrra hlutfalli sem var 34,9%. Við erum því enn þá neðar í dag en við vorum á tímabilinu 1999–2003 og það er auðvitað mjög alvarlegt að bakslög verði sem við náum ekki að rétta almennilega við. Þetta gerðist í alþingiskosningunum og er mjög brýnt að ekki verði hliðstætt bakslag í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010. Við höfum reynslu af bakslögum og við viljum ekki upplifa þau í sveitarstjórnunum.

Gert hefur verið átak á svipaðan hátt og verið er að fjalla um í þessari tillögu. Það var þingsálykunartillaga sem sú er hér stendur flutti og var samþykkt á 122. löggjafarþingi, um aðgerðir til þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Það var einnig þverpólitísk samstaða um þá tillögu. Í kjölfarið var sett á fót þverpólitísk nefnd, opinber nefnd, sem fékk fjármagn af fjárlögum og hún stóð fyrir aðgerðum í um fimm ár.

Árangurinn af verkefnum og starfi þessarar nefndar var mjög góður. Þá jókst hlutur kvenna á þingi um 10% í alþingiskosningunum 1999, m.a. vegna aðgerðanna sem nefndin fór í og þeirrar umræðu sem aðgerðirnar sköpuðu, bæði í flokkunum og í samfélaginu.

Hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tjáði sig þá í fjölmiðlum og dró fram að vinna nefndarinnar og sú umræða sem skapaðist í kringum þá vinnu hefði orðið til þess að hjálpa henni að ná góðum árangri í prófkjöri sem þá fór fram innan Sjálfstæðisflokksins. Konur hafa því komið fram og sagt að þetta skipti mjög miklu máli.

Gefin var út skýrsla eftir að verkefninu lauk. Þar kemur fram að konur eru helmingur þjóðarinnar og það sé réttlætismál að fleiri konur gefi kost á sér til stjórnmálastarfa. Tilgangurinn er að konur og karlar taki sameiginlega ákvarðanir í stjórnmálum og þar með aukast líkurnar á að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað þarf til þess að hlutur kvenna í stjórnmálum verði aukinn? Það er ljóst að konur þurfa að gefa meira kost á sér til stjórnmálastarfa. Það þarf meiri fræðslu til almennings, það þarf fræðslu í fjölmiðlum og í skólum um mikilvægi þess að konur séu til jafns við karla í stjórnmálum. Konur þurfa meiri hvatningu en karlar og þær hafa færri fyrirmyndir í stjórnmálum þannig að það þarf að hvetja þær alveg sérstaklega. Svo þarf að sjálfsögðu, og það er kannski það mikilvægasta, að vera vilji innan stjórnmálaflokkanna til að fjölga konum á framboðslistunum og skipta þar fyrstu sætin mestu máli.

Þar sem reynslan af átaksverkefnum sem þessum er góð leggjum við flutningsmenn eindregið til að farin verði sama leið gagnvart sveitarstjórnarkosningunum svo að við sækjum fram en upplifum ekki bakslag í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum taka sérstaklega fram að Kvenréttindafélag Íslands hélt fund um málið fyrir stuttu síðan. Það ályktaði í lok fundarins og skoraði á Alþingi að samþykkja þessa tillögu. Vísað var sérstaklega til þessarar tillögu í þeirri áskorun þannig að hópar í samfélaginu sem fylgjast vel með jafnréttismálum standa á bak við tillöguna og skora á þingið að samþykkja hana.