136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[10:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég get vel skilið það sjónarmið sem fram kemur hjá hv. þingmanni að hann vilji fá upplýsingar um bæði það sem er í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og eins það sem kom fram á þeim fundum sem við höfum átt um þessi mál við þá aðila sem hann nefndi. Það er hins vegar svo að það ríkir trúnaður um ákveðna þætti sem verið er að fjalla um, þar á meðal um þetta samkomulag og það sem fram fór á þeim fundum sem við höfum átt með aðilum um þessi mál. Ég held að það yrði farsælli lausn þessara mála síst til framdráttar ef við færum einhliða að aflétta slíkum trúnaði. Það gæti leitt til þess að deilurnar færu í enn meiri hnút og finnst mér þær ekki vera í þeirri stöðu að á það væri bætandi.