136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

Búðarhálsvirkjun.

[15:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Staðan er einfaldlega þannig að við lifum erfiða tíma. Það er erfitt fyrir Ísland og íslensk fyrirtæki, líka sterk fyrirtæki eins og Landsvirkjun, að fá fjármögnun til bráðnauðsynlegra hluta í dag. Ekki get ég spáð fyrir um það hversu lengi hið harða frost mun ráða ríkjum en ég vænti þess að því muni slota fyrr enn marga grunar.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Landsvirkjun hefur ákveðið að fresta því að opna útboð í virkjun á Búðarhálsi. Það var framkvæmd sem átti að kosta 23–25 milljarða og skiptir náttúrlega miklu fyrir atvinnulífið á þessum tímum. Sömuleiðis áttu þarna að koma 85 megavött. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefur verið talin forsenda þess að hægt verði að ráðast í framkvæmdir við álverið í Straumsvík sem nauðsynlegar eru til þess að auka framleiðslu þess um 40 þús. tonn á ári.

Hv. þingmaður spyr mig hvort það muni verða til þess að seinka þeim áformum og ég verð bara að vera hreinskilinn og ærlegur við hv. þingmann: Ég tel að það séu miklar líkur á því að svo verði. Hugsanlega er hægt að kreista út úr kerfinu eitthvað upp í þetta en ég tel eigi að síður að eins og málin hafa þróast muni þessi seinkun þýða samsvarandi seinkun á því að álverið komi sér upp þeim búnaði sem nauðsynlegur er til þess að hleypa auknu rafmagni í gegn og þar með að auka framleiðsluna sem því nemur. Það er mín hreinskilnislega niðurstaða á þessari stundu.

Eigi að síður er rétt að undirstrika að hér er einungis um seinkun að ræða. Landsvirkjun hefur gefið þeim fimm aðilum sem tóku þátt í forvalinu kost á því að skoða og bæta við tilboð sín, hugsanlega að kanna hvort þeir, tilboðsgjafarnir, gætu lagt hönd á plóginn (Forseti hringir.) varðandi fjármögnun eins og reyndar mörg dæmi eru um í framkvæmdum hér á Íslandi. Það er einn möguleikinn en hann er ekki fullkannaður.