136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get eins og allur þingheimur vottað að hv. þingmaður er mjög vel læs, það hefur maður oft heyrt úr ræðustólnum. Það er hins vegar þannig að með frumvarpinu er ekki verið að breyta neinu hvað varðar heimildir ráðherrans til að beita einhverju duttlungavaldi í þessum efnum. Það er einfaldlega verið að segja: Almenna reglan er sú að fisk sem er fiskaður á Íslandsmiðum á að vigta í íslenskum höfnum samkvæmt íslenskum lögum. Við sérstakar aðstæður, sem ég var að gera grein fyrir, er hins vegar hægt að víkja frá þeirri reglu enda sé þá þessi fiskur seldur á opinberum fiskmörkuðum erlendis þar sem vigtunaraðferðir eru viðurkenndar. Til viðbótar, og það er kjarni frumvarpsins, er verið að leggja meiri kvaðir á þann sem ætlar að flytja fiskinn óunninn úr landi. Sá aðili þarf að gefa íslenskum fiskkaupendum færi á að bjóða í fiskinn og kaupa hann áður en hann er seldur úr landi.

Mér finnst hv. þingmaður misskilja þetta á þann veg að með frumvarpinu sé verið að opna einhverjar nýjar reglugerðarheimildir. Öðru nær, verið er að þrengja þá möguleika sem menn hafa til að flytja fiskinn úr landi. Sú heimild sem vísað er til gefur ekki færi á neinni pólitískri eða landshlutalegri misnotkun eins og hv. þingmaður ýjaði að í málflutningi sínum áðan. Öðru nær, alls ekki. Þvert á móti er sagt að reglugerðarheimildin lúti að því að menn geti selt þennan fisk úr landi ef hann er seldur á viðurkenndum fiskmörkuðum erlendis sem búið er að viðurkenna af íslenskum stjórnvöldum. Til viðbótar, og það er aðalatriði frumvarpsins, er verið að setja nýjar kvaðir til að tryggja betra aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að fiskinum. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála því meginprinsippi og væri a.m.k. gott að heyra sjónarmið hans og afstöðu til þess máls sem er kjarni frumvarpsins.