136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

42. mál
[18:37]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Árna Johnsens á þessari þingsályktunartillögu og það þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Þetta er byrjunin á því að fara í verulegar hafnarbætur í Vestmannaeyjum sem byrjar með því að gert er líkan og valin höfn og eins og hv. þingmaður minntist á eru valkostirnir þrír. Ég fyrir mitt leyti er mikill áhugamaður um hafnargerð og hef velt þeim málum dálítið fyrir mér, enda hef ég setið í hafnarnefnd í Sandgerði í 24 eða 25 ár og fengist þar við mörg skemmtileg verkefni á þeim tíma.

Ég held að við ættum að skoða fyrst hvað er æskilegast að skoða og að mínu mati er fýsilegasti kosturinn að fara utan við Eiðið. Það er kannski dýrasta framkvæmdin en hún mundi til framtíðar litið verða besti kosturinn og í svona tilfellum þegar fara á í stórar framkvæmdir eins og þessa er dálítið hættulegt að hugsa í árum eða um einhver peningavandræði sem við erum kannski akkúrat í í dag. Við þurfum að hugsa þetta dálítið stórt til framtíðar litið. Það er gleðilegt að vita að Vestmannaeyjabær eða Vestmannaeyjahöfn er búin að tryggja fjárframlag sitt í þennan gjörning. Það er auðvitað hið besta mál og mjög af því góða.

Það er rétt að 10% af öllum afla á Íslandsmiðum er landað í Vestmannaeyjum og þegar við í Frjálslynda flokknum verðum búnir að breyta um fiskveiðistjórnarkerfi mun sú tala væntanlega hækka verulega (Iðnrh.: Hvað með Sandgerði?) þar sem Vestmannaeyjar liggja að góðum fiskimiðum og þegar betri stjórn verður á fiskveiðimálunum mun auðvitað víðast hvar aukast landaður afli, hv. iðnaðarráðherra. (Iðnrh.: Hæstvirtur.) Hæstvirtur, fyrirgefðu. Enn einu sinni gleymi ég hvernig ég á að ávarpa ráðherra og þingmenn og orða þetta rangt.

Það þarf ekki mörg orð um þetta mál en enn og aftur furða ég mig á því hve fáir þingmenn eru í salnum til að ræða þessi mál. Við erum hér aðeins tveir þingmenn úr Suðurkjördæmi, einn úr Samfylkingunni og reyndar þrír úr Frjálslynda flokknum. En mér finnst það dálítið sorglegt að þingmenn Suðurkjördæmis skuli ekki taka þátt í umræðunni með okkur.