136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir smærri fjármálafyrirtækja.

[10:48]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að aðstoðarmaður minn var í samskiptum við ríkisbankana var einfaldlega sú að tilmæli Fjármálaeftirlitsins lutu að þeim en ekki hinum bönkunum, yfir þeim ráðum við ekki. Eina aðkoma okkar að peningamarkaðssjóðum hinna smærri fjármálafyrirtækja var að beina því til bankanna að ræða við þá á viðskiptalegum forsendum um hvort forsendur væru til sambærilegra hluta.

Það skiptir miklu máli, af því að Samkeppniseftirlitið var nefnt áðan, að Samkeppniseftirlitið sendi í gær frá sér mjög myndarlega greinargerð og álit á starfsháttum hinna nýju banka og hvernig þeir ættu að gæta samkeppnissjónarmiða til hins ýtrasta. Þeir lögðu það m.a. til að settur yrði sérstakur ábyrgðarmaður samkeppnismála inn í hvern banka fyrir sig og komu með margar mjög öflugar hugmyndir um hvernig gæta megi ýtrustu almannahagsmuna, samkeppnissjónarmiða og jafnræðis innan bankana sjálfra. Allar ákvarðanir eru teknar á viðskiptalegum forsendum en ekki út af pólitískri íhlutun (Forseti hringir.) í bönkunum þó að ríkið eigi þá. Það er það sem við þurfum að forðast umfram allt.