136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:27]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um sveitarfélögin og stöðu þeirra. Það er svo sem ekki auðvelt að gera kröfu á ríkið þar sem ríkið stendur gríðarlega veikt eftir þær hörmungar sem gengið hafa yfir. En engu að síður fara sveitarfélögin með svo mikilvægt hlutverk í sambandi við alla nærþjónustu og velferðarþjónustu og þess vegna má ekki mikið út af bera hjá sveitarfélögunum. Ríkið verður því þrátt fyrir þrönga stöðu að líta á sig sem bakhjarl gagnvart sveitarfélögunum. Það kom mjög glögglega í ljós í umræðunni á þingi sveitarstjórnarmanna í dag.

En munurinn er líka sá að þegar kreppan skellur á eru sveitarfélögin mjög skuldug en ríkið nánast búið að borga upp skuldir sínar. Ríkið hefur þá vonandi eitthvert svigrúm — og ég treysti því — til að líta til sveitarfélaganna og sjá til þess að þjónustugjöld verði ekki hækkuð hjá fjölskyldunum, gagnvart barnafólki.

En það var eitt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan sem kom mér mjög á óvart. Það var þegar hann sagði: Þegar nýtt fjárlagafrumvarp verður lagt fram. Hann orðaði það þannig, hæstv. ráðherra. Er verið að vinna að nýju fjárlagafrumvarpi einhvers staðar úti í bæ? (Gripið fram í.) Það er þá ekki verið að fara að þingsköpum ef svo er því að þingið er með fjárlagafrumvarp. Ég vil biðja hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála að útskýra (Forseti hringir.) orð sín betur í síðari ræðu sinni.