136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:46]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur ætla ég að ítreka að það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða í heilbrigðis- eða velferðarþjónustunni. Við höfum hins vegar verið opin gagnvart einkarekstri, útboðum, ef það bætir þjónustuna og minnkar kostnað. Það eru þær forsendur sem við setjum fram sem geta réttlætt einkarekstur. Ég skil satt best að segja ekki þann kreddulega málflutning sem hér ríkir hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna, að vera á móti einkarekstri sem bætir þjónustuna og minnkar kostnað, bæði fyrir hið opinbera og hugsanlega fyrir einstaklinginn.

Vinstri grænir vilja gera einhvern greinarmun á góðum einkarekstri og slæmum einkarekstri. Nú er allt í lagi að vera í einkarekstri ef um sjálfseignarstofnun er að ræða. Það voru ekki skilaboð Vinstri grænna þegar þeir lögðust gegn því að hin góða stofnun Grund fengi aukið vægi í þjónustu við eldri borgara. Vinstri grænir voru á móti því. Í þeirra huga átti einkaaðili að vera góður. Ég held að þingheimur og þjóð sjái út í hvers konar móa þessi flokkur er kominn þegar kemur að þessari umræðu.

Þingið samþykkti framsækna löggjöf um Sjúkratryggingastofnun. Í lögunum er beinlínis tryggt að ekki megi mismuna eftir efnahag. Þar er tryggt að ekki megi kaupa sig fram fyrir í röðinni. Þetta eru sjónarmið sem ég held að flestir hér inni getið tekið undir og þjóðin líka.

Það á að hafna öllum kreddumálflutningi, hvort sem litið er til blindrar markaðshyggju eða blindrar ríkisforsjár, það er hugmyndafræði sem við eigum ekki að tala fyrir. Í mínum huga er millivegurinn langbestur og sú er stefna okkar, hv. þingmaður.