136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara nokkrum af þeim spurningum sem fram komu í máli hv. þingmanns. Síðustu spurningarnar varðandi gengi krónunnar, gjaldeyrishöft og annað hef ég þegar komið inn á. Að þurfa að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frávik frá hinum almennu reglum hans varðandi bann við fjölgengisstefnu og gjaldeyrishöftum á almennum viðskiptum er bara hluti af þeim almennu skuldbindingum sem við gengumst undir 1945 og höfum annað slagið þurft að fá sérstaka undanþágu fyrir eins og aðrar þjóðir. Á því er hnykkt í þessari ályktun og þess vegna þarf að biðja um það. Það hefði þurft að gera hvort sem þetta samkomulag hefði verið gert eða ekki.

Auðvitað þarf að fara varlega, hv. þingmaður, þegar krónan verður sett á flot, það gera sér allir grein fyrir því. Það getur verið hættulegt að sturta peningum í eitthvað ef það myndast hít í eftirspurn eftir gjaldeyri á þeim vettvangi. Þess vegna verður að fara mjög skipulega og varlega í það mál.

Varðandi kjör á lánum frá öðrum aðilum en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum liggja þau ekki fyrir. Ekki er búið að semja um þau lán til hlítar. Ég geri ráð fyrir að um hefðbundin kjör verði að ræða, a.m.k. hvað vextina varðar, en það er eitt af því sem eftir er að ganga frá. En auðvitað er mikilvægt að fyrirheitin um að vilja lána okkur séu fyrir hendi og vaxtagreiðslurnar fara á endanum eftir því hve mikið verður dregið á þessi lán. Við höfum hugsað okkur þau sem sérstakan varnarvegg sem kannski þarf ekki mikið að nota eftir því hvernig gengur með gjaldeyrisviðskiptin.

Vitanlega þurfum við að eiga samstarf við Bretland um að verja eignir Landsbankans. Þegar hefur átt sér stað ákveðið samstarf og það er mjög mikilvægt að standa vörð um þær eignir eftir því sem hægt er. Icesave-samkomulagið er jafnframt liður í því til þess að geta greitt upp í þær skuldbindingar.