136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:00]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni þessa andsvars hæstv. forsætisráðherra vil ég ganga eftir því, þegar hann segir að vissulega sé búið að ræða við Breta um þær eignir sem Landsbankinn á í Bretlandi, hvort áður en menn gengu til þeirrar lausnar að undirgangast Icesave-reikningana hafi legið fyrir eitthvert samkomulag um með hvaða hætti þjóðirnar sameinuðust um að verja þessar eignir og viðhalda þeim. Því það skiptir auðvitað verulegu máli fyrir okkur sem þjóð hvað við þurfum raunverulega að taka á okkur af þessum skuldbindingum sem við erum búin að undirgangast varðandi Icesave-reikningana.

Ég er engu nær þótt því sé svarað að um sé að ræða hefðbundin kjör af lánum. Eru það 5%, 3% eða 7%, hæstv. forseti? Það hefur því ekki fært mér neina vitneskju um í hverju við erum að lenda. Ég er að reyna að átta mig á því, hæstv. forseti, í hvaða fjárskuldbindingum við lendum. Við erum að reyna að koma saman fjárlögum og loka þeim og allt þetta skiptir máli fyrir framtíð okkar.

Ég vil líka minna hæstv. forsætisráðherra á að hann svaraði í engu spurningum mínum um hvort farið hefðu fram fundir sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri óskaði sérstaklega eftir að halda með forustumönnum ríkisstjórnarinnar þar sem hann hafi upplýst skilmerkilega um þá hættu sem væri fram undan í íslensku þjóðfélagi.

Ég ítreka þá spurningu við hæstv. forsætisráðherra hvort seðlabankastjóri hafi varað mjög skilmerkilega við því í hverju við værum að lenda.