136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:18]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er sorglegt að horfa upp á hlutina ganga eins og þeir hafa gengið fyrir sig síðustu sex vikurnar. Að stórum hluta er það lélegri ríkisstjórn og lélegri stjórnun að kenna hvernig haldið hefur verið á. Hvað varðar Seðlabankann þá er það ekki spurning um vilja hjá þeim, að reyna að gera vel úr þessari stöðu, heldur miklu meira spurning um getu. Það er ekki alltaf það sama, vilji og geta.

Það sem ég tel hafa farið verst eftir að bankarnir hrundu og við fengum á okkur þessi hryðjuverkalög í Bretlandi var sá aumingjagangur í stjórnvöldum að sýna ekki klærnar strax og bíta frá sér þegar á okkur var ráðist, þ.e. með því að hóta málaferlum og fara að vinna í því fyrir alþjóðadómstólum að láta Breta ekki komast upp með þessi vinnubrögð.

Ef við hefðum haft þessi stjórnvöld í þeim landhelgisstríðum sem við háðum á sínum tíma við Breta hefðum við tapað þeim öllum. Við hefðum jafnvel þurft að sýna klærnar með þeim hætti að kalla sendiherra okkar frá Bretlandi heim og reka sendiherra þeirra heim til sín og slíta við þá stjórnmálasambandi, hóta jafnvel úrsögn úr NATO og ýmislegt annað eins og gert var þegar við vorum í landhelgisstríðunum. Því það er með Breta eins og aðra þegar þeir halda að þeir geti komist upp með að koma svona fram við litla þjóð — hefðum við búið okkur betri vígstöðu í samningum hefðum við fengið samúð annarra þjóða með því að bíta frá okkur í stað þess að láta kúga okkur.

Það er nú það sem verið er að gera við íslensku þjóðina núna. Það er verið að kúga okkur á hroðalegan hátt með því að hafna því að við setjum í gerðardóm ágreining okkar við Evrópusambandið eða þessar 27 þjóðir í Evrópusambandinu (Forseti hringir.) og aðrar þjóðir.