136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum stödd á skrýtnum stað að vera komin í prógramm hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sá staður varð auðvitað ekki til úr neinu tómi. Allt frá 1991 hefur verið rekin hér mjög meðvituð pólitísk afskiptaleysisstefna í anda frjálshyggju og sá aldni seðlabankastjóri sem talaði í fyrradag og leit yfir sviðið og horfði á verk sín og var hissa á þeim þarf svo sem ekkert að undrast enda er ábyrgð hans rík sem forsætisráðherra hér frá 1991, maðurinn sem leiddi einkavæðingu bankanna.

Nú eru komin kaflaskil í þessa sögu okkar Íslendinga þegar við horfum á 24. gr. þessarar þingsályktunartillögu þar sem segir:

„Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé. Við gerum ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja,“ og afgangurinn 5 milljarðar dala til að mæta sjóðsþörf.

Þessir fjármunir munu væntanlega verða nýttir til endurfjármögnunar bankanna en þetta eru stórar tölur og engin leið eftir, segja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar. Þetta er eina leiðin sem við eigum færa, að fara í prógramm hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem löngum hefur verið þekktur sem kyndilberi frjálshyggjunnar í heiminum. Nú liggur efnahagsáætlunin fyrir sem ríkisstjórnin segist semja sjálf en þó á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem mér finnst sérkennilegt orðalag og ég velti því fyrir mér nákvæmlega hvað þau meina, en vænti þess svo sem ekki að fá svör.

Prógrammið er það sama og alltaf hjá þessum sjóði og ekki í neinu samræmi t.d. við aðgerðir annarra landa eins og Bandaríkjanna og Evrópuþjóða þar sem ríki hafa keppst við að lækka stýrivexti, reka ríkissjóð með halla til að geta örvað eftirspurn í hagkerfunum og haldið uppi atvinnustigi. Hér var farið í vaxtahækkun, þessa frægu vaxtahækkun sem ég lýsti nú efasemdum um þegar hún var til umræðu í almennri umræðu um efnahagsmál á dögunum. Hér hefur auðvitað lengi verið rekin hávaxtastefna og það er til marks um peningamálastefnu sem í raun hefur verið einhvers staðar úti í móa árum saman að hér hafa verðbólgumarkmið ekki náðst lengi og þau hafa verið sett 2,5%. Hér hafa vextir verið háir lengi og nú er búið að hækka þá enn og aftur í 18% og ég óttast að við sjáum ekki fyrir endann á því.

Hv. þingmaður sem á undan mér talaði, hv. þm. Bjarni Benediktsson ræddi það að hann vonaðist til þess að vextirnir mundu lækka en ég óttast að við sjáum ekki fyrir endann á því og ég horfi til reynslu annarra landa sem hafa farið í þetta prógramm. Ég er orðin dálítið hrædd um að ríkisstjórnin og Seðlabankinn séu föst í einhverju hjólfari, haldi uppi genginu og taki á verðbólgunni með aðferðum sem virka ekki endilega. Vissulega eiga þær að virka samkvæmt líkaninu sem ég veit að er stuðst við í þessum efnum en því miður höfum við reynsludæmi sem sýna annað.

Prógrammið er forsenda lánsins og hverjir eiga að fara með fjármunina? Jú, það er einmitt sami Seðlabankinn og hefur staðið að þrotinu, það er sama Fjármálaeftirlitið og gaf bönkunum heilbrigðisvottorð, liggur við í gær, og sama ríkisstjórnin undir forustu sama stjórnmálaflokks sem hefur verið svo lengi í stjórn að ég man eiginlega ekki eftir neinni stjórn sem ekki innihélt Sjálfstæðisflokkinn. Sama fólkið og kom okkur í þrot, fólk sem brást ekki við skuldsetningu þjóðarbúsins, fólk sem brást ekki við útbólgnun bankakerfis, fólk sem rak peningamálastefnu sem hefur verið úti í móa, eins og ég sagði áðan. Þetta fólk segir: Nú þurfum við á trausti að halda til að halda áfram að stjórna. En það bara hefur ekki traust. Ég er ansi hrædd um að það hafi ekki traust.

Við erum að fara inn í prógramm, hávaxtaprógramm, eins og ég nefndi áðan, sem atvinnulífið í landinu mun fara illa út úr. Það stendur ekki undir þessum háu vöxtum. Heimilin í landinu standa ekki undir þessum háu vöxtum. Ég held að eitt mikilvægasta verkefni þeirra sem nú halda um stjórnartaumana og þeirra sem munu taka við af þeim, vonandi fyrr en síðar, sé að halda uppi atvinnustigi í landinu.

Það er mjög mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða, að hluti af lánsfénu fari til þess að halda uppi atvinnustiginu. Lítum til Finna og reynslu þeirra þar sem atvinnuleysi, langtímaatvinnuleysi var í 20–30% árum saman í þrengingum þeirra, þegar þeir reyndu einmitt að spara sig út úr kreppunni, skera niður og spara. Hvaða áhrif hefur slíkt langtímaatvinnuleysi á eina þjóð?

Þá kem ég líka að því sem við köllum aðhald í opinberum fjármálum, eða er kallað það í þessari þingsályktunartillögu, og þar þykist ég þekkja handbragð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur farið víða um lönd.

Vergar skuldir hins opinbera munu auðvitað aukast og er reiknað með að þær verði 109% af landsframleiðslu í árslok 2009, sem þýðir auðvitað auknar byrðar á almenning og það er boðað að hinu opinbera verði settar verulegar skorður. Að sjálfsögðu verður skorið niður og búið að boða það nú þegar á fjárlögum þessa árs. Líklega verður ráðist í skattahækkanir og ætlast er til að við greiðum skuldirnar hratt og örugglega því að hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er auðvitað að gæta hagsmuna fjármagnseigenda um heim allan og þeirra hagsmunir eru að sjálfsögðu að við borgum skuldirnar hratt þó að það bitni á innri samfélagsgerð okkar, þó að það bitni á velferðarkerfi okkar eða atvinnustigi.

Hvernig ætlum við að borga skuldirnar? Í 14. gr., með leyfi forseta, undir liðnum Hin metnaðarfulla áætlun um ríkisfjármál — gaman að tungumálinu — stendur:

„Sala á hlut ríkisins í nýju bönkunum getur lækkað skuldir hins opinbera verulega og dregið úr þörf fyrir aðhald í ríkisfjármálunum.“

Nú veit ég ekki hversu söluvænleg vara bankarnir verða orðnir. Vonandi munu þeir verða það en ég spyr: Hvað ætlum við að læra af öðrum löndum? Ég hef áður nefnt Norðmenn og Svía sem lentu í krísum sínum og ákváðu eftir það að ríkið ætti að eiga eignarhlut í stærstu bönkunum upp á þriðjung til að málin færu einmitt ekki eins og þau fóru hjá okkur, í þetta tóma tjón sem ég leyfi mér að kalla svo.

Verður kannski eitthvað fleira selt þó að ekki sé kveðið á um það, því að þetta er auðvitað svo gríðarleg skuldsetning? Ég velti fyrir mér hvað við eigum meira til að selja. Kannski orkuauðlindirnar, eigum við eftir að sjá stefnubreytingu í þeim efnum, allt til þess að hægt sé að halda áfram að reka hér kerfi sem lýtur lögmálum frjálshyggjunnar, því það er jú partur af prógramminu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Ég efast ekkert um að við erum komin í þrönga og erfiða stöðu, en ég skil hins vegar mjög vel þá sem segja: Þurfum við virkilega lán með þessum skilmálum? Því þetta eru ansi harðir skilmálar fyrir íslenska þjóð. Ég skil ekki síður fólkið sem stendur í hverri viku úti á Austurvelli og mótmælir því að sama fólkið ætli að halda áfram að möndla með fjármuni almennings og hagsmuni almennings, sama fólkið og leyfði því að gerast að einkafyrirtæki keyrðu okkur í raun í þrot, þ.e. bankarnir okkar, glæstu útrásarvíkingarnir sem nú er búið að taka út úr titlinum á ævisögu forseta lýðveldisins af því að enginn vill lengur kannast við þá. Á þá var horft hér með velþóknun af þeirri ríkisstjórn eða þeim ríkisstjórnum sem hafa setið undir forsæti Sjálfstæðisflokks frá 1991 og nú sitjum við uppi með byrðarnar. Ég skil ósköp vel að fólk kalli eftir því að nú komi nýir aðilar til skjalanna til að fara með lánsféð, en ég kalla ekki síður eftir því að nýjar hugmyndir komi til skjalanna.

Hugmyndafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins smellur því miður eins og flís við rass þeirra stjórna sem hér hafa setið með frjálshyggjustefnu sína og því sé ég ekki fram á nokkra hugmyndafræðilega breytingu ef við göngum inn í þetta prógramm fremur en ég sé fram á nokkur mannaskipti, því að hér stritast fólk við að sitja, eins og sagt var í góðri Íslendingasögu, og ég sé ekki fram á að nokkur hugsi sér til hreyfings.