136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:34]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er mörgu að svara. Ég náði ekki að svara öllu áðan sem ég ætlaði að svara í fyrri ræðunni og kem ég beint að spurningunni um sameiningu bankanna. Eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan verður sérstaklega að skoða samkeppnissjónarmið þar. Þótt bankarnir séu allir í eigu ríkisins eru þeir þrjár einingar í samkeppnislegu tilliti. Öllum er í fersku minni þegar Samkeppnisstofnun lagðist á sínum tíma gegn samruna Búnaðarbanka og Landsbanka fyrir átta árum og svipuð staða yrði sjálfsagt líka uppi núna. Það getur því verið að samruni þessara banka raski samkeppni og fari ekki að samkeppnislögum. Ég mundi ekki stuðla að slíkum samruna nema í tengslum við einhverjar aðrar breytingar löngu seinna sem tryggja virka samkeppni.

Hvað varðar smærri fjármálafyrirtæki sem hv. þm. Jón Bjarnason spurði um er starfshópur að störfum um vanda minni fjármálafyrirtækjanna sem fer yfir stöðu hvers um sig en hefur byrjað á þeim sem verst standa. Ekki er komin niðurstaða en við vonumst eftir því að þrotahrinu fjármálafyrirtækja sé lokið. Það er meginmálið að koma í veg fyrir að sparisjóðirnir falli. Það er fyrsta málið og að því höfum við verið að vinna.

Endurskipulagning bankanna er gríðarlega mikið verkefni, hún stendur yfir. Hún hefur nú hafist formlega og af fullum krafti og þáttaskilin í því voru skipun nýju bankaráðanna. Erlent eignarhald kemur að sjálfsögðu til greina. Það getur tryggt alþjóðleg tengsl bankanna og sneitt fram hjá ýmsum vandamálum sem voru fyrir hendi í gömlu bönkunum eins og þröngu eignarhaldi, fyrirgreiðslum, krosseignatengslum og mörgu fleira.

Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir nefndi áðan erlendu sérfræðingana sem við höfum fengið til að vinna að endurskoðuninni og ýmsu öðru. Ég tek fram að hér er um að ræða gríðarlega stórt verkefni sem rétt er farið af stað og margir koma að. Stjórnarandstaðan mun að sjálfsögðu koma að þeirri vinnu að endurskoða regluverk og umhverfi fjármálafyrirtækja í landinu.