136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[14:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Þá er komið hér til umræðu frumvarp um endurgreiðslu á vörugjaldi af ökutækjum og virðisaukaskatti af bílum, mál sem hefur verið kallað Range Rover-málið. Eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ástæðan fyrir því að málið kemur á dagskrá sú að myndast hefur mikið ójafnvægi á markaði fyrir nýjar og notaðar bifreiðar. Það er einnig upplýst að nú séu um 5.000 ótollafgreiddar nýjar bifreiðar í landinu og 8.000–10.000 óseldar notaðar bifreiðar.

En þar kemur einnig fram að stór hluti notaðra bíla hefur einmitt verið tekinn upp í greiðslu fyrir nýja bíla og er þess vegna í eigu bílaumboðanna þar sem er að auki fullt af nýjum bílum.

Það er alveg ljóst að í neyslufylliríinu sem hér hefur viðgengist á undanförnum missirum og í því gríðarlega ójafnvægi sem verið hefur milli innflutnings og útflutnings, á innflutningur á bílum mjög stóran þátt í því að einkaneyslan fór algjörlega á hvolf. Ástæðan fyrir því að menn ætluðu sér að halda fylliríinu áfram var eins og í öðru að ríkisstjórnin og þeir sem hér ráða sáu ekki hætturnar fyrir. Þeir áttuðu sig ekki á því að vöruskiptaójöfnuðurinn var kominn algjörlega á hvolf og menn máttu vita að eitthvað mundi undan láta.

Að mínu viti mátti það vera ljóst hverjum manni en því miður héldu menn áfram að kaupa inn bíla, stóra, mikla og dýra bíla. Það er alveg ljóst að þeir sem ekki geta selt þá núna eru illa settir. En ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við að í auglýsingu ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum um þarsíðustu helgi er þessa getið sem aðgerða í þágu heimilanna. Ég nefndi í gær að ég tel að ef menn eiga að taka ríkisstjórnina og þessa auglýsingu hennar alvarlega, hæstv. ráðherrar, hlýtur hér að vera um að ræða heimili þeirra sem eiga og reka bílaumboð í landinu, enda sagði ráðherrann áðan: Fyrstir koma, fyrstir fá. Var það ekki, fyrstir koma, fyrstir fá? (Fjmrh.: Nei, ekki það.) Ekki það? (Gripið fram í: Fyrstir koma, allir fá.) Fyrstir koma, allir fá. Það er nefnilega það.

Ég vil vekja athygli á því að í þessari auglýsingu um aðgerðir í þágu heimilanna er verið að létta af sköttum, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á áðan, þegar um gjöld af bílum er að ræða, þ.e. vörugjaldi og virðisaukaskatti. Í auglýsingunni sem ég nefndi áðan eru tíundaðar ellefu aðrar aðgerðir, þar á meðal að felld verði úr gildi tímabundið heimild til þess að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum. Það er gott eins langt og það nær en það stendur ekki til að fella niður opinber gjöld af þeim sem ekki geta borgað og hingað til hafa verið hirtar barnabæturnar af til þess að skuldajafna.

Í auglýsingunni stendur einnig að fella eigi úr gildi heimild til þess að skuldajafna vaxtabótum á móti afborgunum lána hjá Íbúðalánasjóði og það er gott svo langt sem það nær. En það stendur ekki til að fella niður afborganirnar sem slíkar. Það stendur hins vegar til að fella niður skatta sem menn hafa greitt eða þurfa að greiða upp á 1,5–2 milljarða kr. af bílum, af of mörgum bílum inn í landið. Stór hluti þessarar fjárhæðar er auðvitað vegna mjög dýrra bíla og við vitum alveg hvernig bílar hafa verið fluttir inn á undangengnum árum.

Ég sé í kringum mig bíla upp á 10–15 jafnvel 20 millj. kr. á götunum og það er auðvitað mjög sárt fyrir þessa menn að geta ekki selt þá núna. En eigum við að fara að fella niður opinber gjöld af þessari óráðsíu meðan að við stöndum frammi fyrir því að ekki er einu sinni verið að hækka barnabætur á vegum ríkisstjórnarinnar heldur er hér einungis í þessari auglýsingu verið að segja að greiða eigi barnabæturnar út tólf sinnum á ári? Sömu fjárhæð bara tólf sinnum á ári í stað fjórum sinnum. Ég get ekki samþykkt að það séu aðgerðir í þágu heimilanna. Hér er um gríðarlegt ójafnræði að ræða.

Það eina sem kostar peninga í þeim aðgerðum sem auglýstar hafa verið fyrir heimilin í landinu er aukinn sveigjanleiki gagnvart fólki í greiðsluvanda og þar er ekki um neina 2 milljarða að ræða og heldur ekki 1,5. Ekki 1 milljarð og ekki hálfan milljarð, ekki einu sinni 100 milljónir. Þar munu útgjöld úr ríkissjóði nema 21,5 millj. kr. Það er vegna tveggja til þriggja stöðugilda til viðbótar sem þarf að ráða til Íbúðalánasjóðs þannig að hægt sé að anna lengingu skuldbreytingar lána og lána til fólks í greiðsluerfiðleikum úr 15 árum í 30 ár. 21,5 millj. kr. eru lagðar fram til þess að auðvelda fólki að lengja lánin sín en 1,5–2 milljarðar kr. til þeirra sem hafa offjárfest og sökkt sér á kaf í skuldir vegna bílakaupa. Ég verð að segja alveg eins og er að ef ríkisstjórnin ætlar sér að fara að fella niður skatta af fólki og gjöld er hér byrjað á öfugum enda.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu kemur fram að með þessu móti gæti verið hægt að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið til skemmri tíma litið sem gæti numið í kringum 10 milljörðum kr. eftir því hversu mikill útflutningurinn verður. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða trygging er fyrir því að andvirði þeirra bíla sem seldir yrðu úr landi á grundvelli þessa frumvarps skili sér aftur til Íslands að öllu leyti eða yfir höfuð?

Það er ekki ýkja langt síðan að menn voru að svindla hér með vörureikninga á útfluttum skipum, seldum og keyptum. Ég sé ekki að hér sé með neinu móti sett fyrir slíkan leka. Ef ríkisstjórnin telur þetta vera innlegg í þá gjaldeyriskrísu sem hér ríkir og er nú eitthvað aðeins að lagast, að flytja ónotaða bíla úr landi með þessum hætti er hún verr á vegi stödd en ég hélt.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að verið er að flytja vinnutæki úr landi. Verið er að flytja stórvirkar og dýrar vinnuvélar úr landi. Það gæti orðið erfitt fyrir okkur að kaupa þær inn aftur þegar við verðum búin að rétta þannig úr kútnum að við getum farið aftur í framkvæmdir.

Ég hlýt að taka auglýsingu ríkisstjórnarinnar alvarlega. Það er gaman á ráðherrabekknum. (Gripið fram í: Já það er gaman.) Ráðherrarnir ætla að borga út barnabætur í hverjum mánuði en ekki á þriggja mánaða fresti. Það er skemmtilegt. Ráðherrarnir ætla ekki að taka barnabætur upp í skatta foreldra. Það er skemmtilegt en þeir ætla ekki að fella skattana niður. Ráðherrarnir skemmta sér. Þeir ætla ekki að fella niður vaxtabætur. Þeir ætla ekki að fella niður afborganir lána hjá Íbúðalánasjóði. Þeir ætla bara að hætta við að taka vaxtabæturnar upp í þær. Þeir ætla að semja um skatta og skuldir við þá sem nú lenda í vandræðum og þeir ætla að fella niður dráttarvexti, kostnað og gjöld í afmörkuðum tilfellum. Það eru allt saman aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Þeir ætla að fella niður stimpil- og þinglýsingargjöld og komið er frumvarp um það, kannski er það orðið að lögum nú þegar.

En þar er ekki um að ræða neina tekjuskerðingu fyrir ríkið vegna þess að menn ætluðu ekki að neinar tekjur kæmu af því hallæri sem hér er gengið í garð. Menn höfðu ekki reiknað ríkissjóði tekjur af því að hér þyrftu mjög margar breytingar á fasteignasamningum að ganga í gegn. Menn höfðu ekki reiknað ríkissjóði neinar tekjur af stimpil- og þinglýsingargjöldum og þess vegna er ekki um neitt framlag úr ríkissjóði að ræða. Það er einungis verið að segja að ríkissjóður ætlar ekki að hagnast á þeim miklu vanskilum sem menn munu lenda í.

Það væri hægt að halda svona áfram með þessa auglýsingu. Það er ekkert í henni sem kostar bein fjárútlát úr ríkissjóði nema þessar 21,5 millj. kr. sem ég nefndi áðan vegna Íbúðalánasjóðs og svo aftur það frumvarp sem hér er til umræðu. Þar á að setja 1,5–2 millj. kr. til heimila þeirra sem hafa verið að flytja inn bíla og sitja uppi með þá óselda svo þúsundum skiptir. Ég hlýt að lýsa yfir fullkominni hneykslan á forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að bjóða fólki upp á þetta.

Komið þið hér inn, ráðherrar góðir sem skemmtið ykkur svona vel, með skattalækkanir og tillögur um 1,5–2 milljarða kr. fyrir önnur heimili á landinu. Ég er ansi hrædd um að þar sé þörfin meiri en hjá þeim sem þið ætlið hér að bæta, bæta vitlausan innflutning á allt of dýrum bílum.