136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:34]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er með bílaflotann eins og íbúðaflotann, ef við getum sagt sem svo, við erum búin að fara fram úr okkur á þessum sviðum. Við höfum byggt íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og þenslusvæðunum langt umfram þörf og það þarf í raun og veru ekki að byggja íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði eða skrifstofuhúsnæði næstu árin. Það er eins með innflutning á bílum, þeir eru auðvitað háðir árgangi, þeir eru bundnir við framleiðslu hvers árs en ég er hrædd um að ef umboðin nái ekki að flytja úr landi þær þúsundir bíla sem eru hér á hafnarbakkanum eigum við dálítið drjúgan varasjóð, að innflutningur sem slíkur þurfi ekki að vera um einhvern tíma, heldur sé hægt að koma þeim bifreiðum í notkun og skráningu og þar af leiðandi tekjum til ríkissjóðs af þeim bílum sem þegar standa á hafnarbakkanum.

Vissulega mun hjálpa til ef hægt er að losna við þá bíla sem fólk ræður ekki við að borga af eða vill losna við, sem sé notaða bíla úr landi. Það hjálpar auðvitað bæði bílasölum og einstaklingum að koma notuðum bílum úr landi. Það kemur vonandi líka í umferð nýjum bílum sem eru nú þegar komnir til landsins. Þetta er allt háð markaðnum erlendis en þá vil ég rifja upp að hér hefur gengið mjög vel að selja gamla traktora úr landi, Zetor og Ursus, þar sem pólskir bændur sækjast eftir traktorum sem eru þá gjarnan komnir til ára sinna. Hefur það gefið (Forseti hringir.) bændum þó nokkrar tekjur upp á síðkastið.