136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki get ég svarað fyrir stjórn og dagskrá þingsins en minni nú samt á það sem hæstv. forseti sagði í upphafi þings að hann vildi stefna að því að öll þingmannamál yrðu afgreidd úr nefnd og rædd hér í þinginu, sem ég tel mikils virði, og komi hér til afgreiðslu.

Ég var ekki að átelja þingheim fyrir að afgreiða ekki mál sem ekki er komið fram. Ég var hins vegar að átelja Alþingi fyrir að vera ekki búið að koma frá sér lögum um óháða rannsóknarnefnd sem getur rannsakað allt þetta mál og hvernig það er vaxið til þess að auka á ný tiltrú á viðskiptalífið, á stjórnsýsluna, á stjórnmálalífið. Þetta mál er búið að liggja á vettvangi formanna flokkanna núna vikum saman og það er ekki fært að þetta komist ekki hér inn í þingið. Þetta tekur of langan tíma og ég er að mæla hér fyrir því að þingmenn skynji ábyrgð sína í þessu máli. Það er ábyrgðaratriði okkar allra að við tryggjum að Alþingi taki það hlutverk sem Alþingi ber í þessu efni, haldi stjórnvöldum við efnið og tryggi að hér komi fram og verði afgreidd í þinginu lög sem gera það kleift að grennslast fyrir um þetta mál í heild sinni og leiða það í ljós. Það er grundvallaratriði til að Alþingi fái viðhaldið virðingu sinni. Þarna verða alþingismenn að standa saman.

Þetta snýst ekki um að hér sé verið að reyna að koma einhverri sök á stjórnarandstöðu. Það er fjarri mér. Ég er einfaldlega að segja að þetta mál er búið að vera of lengi á vettvangi formanna flokkanna og þessu verður að fara að linna.