136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

bifreiðakaupastyrkir til hreyfihamlaðra.

163. mál
[15:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Oft hefur ráðherra félagsmála vakið hrifningu mína með svörum sínum og fyrir áhuga á mörgum málefnum sem snerta velferð fatlaðra. En ég verð að segja að svar hæstv. ráðherra hér áðan var ekki til eftirbreytni. Ég sagði það í fyrirspurn minni í upphafi að vaxandi þrýstingur hefði verið á síðasta kjörtímabili hvað það varðar að hækka þessar bætur.

Ég get sagt við hæstv. ráðherra, sem húðskammaði mig fyrir að koma hér upp og hreyfa við þessu máli, að ég hreyfði oft við þessu þegar ég var þingmaður á síðasta kjörtímabili. Því miður náðist ekki árangur þá. En hæstv. ráðherra leyfir sér að lýsa yfir furðu sinni á því að ég skuli voga mér að hreyfa við málinu.

Frú forseti. Hvers lags dónaskapur er þetta? Við erum að tala hér um grundvallarmannréttindi fatlaðra og það var á síðasta kjörtímabili sem fatlað fólk, m.a. á Akureyri, hafði samband við mig til að lýsa aðstæðum sínum. Ég skal játa að ég náði ekki fram þeim árangri sem ég hefði viljað á síðasta kjörtímabili en margt var gott gert í málaflokknum þá. Ég vil líka benda á það, eins og hæstv. ráðherra ætti líka að vera kunnugt, að ekki fara allar beiðnir frá viðkomandi fagráðuneytum í gegnum ráðuneyti fjármála. Ég bið hæstv. ráðherra um að leyfa fyrrverandi félagsmálaráðherrum að njóta sannmælis og skella ekki skuldinni á einn stjórnmálaflokk.

Ég held því hér til haga að ekki er um mjög háar upphæðir að ræða og það þarf að bregðast við þessu. Það þurfti að gera það á síðasta kjörtímabili eins og ég benti á í framsögu minni. Ég hafði góðan vilja til þess. Ég ætla ekki að hætta að hreyfa þessu máli hér á Alþingi þótt hæstv. félagsmálaráðherra komi hér upp og hneykslist á því að ég skuli sem þingmaður vilja hreyfa við því. (Forseti hringir.) Ég hef ætíð haft mjög góðan vilja til að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks. Hér er um grundvallarmannréttindi þessa fólks að ræða og ég hafna því (Forseti hringir.) algjörlega að ég sé snupraður í ræðustóli Alþingis fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli.