136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:47]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég á orðið svolítið erfitt með að átta mig á því hvað menn eru að fara með þessi 10%. Hér er ég með bréf í höndunum frá fjármálaráðuneytinu þar sem tilmæli voru send til annarra ráðuneyta um miðjan nóvember og þau beðin um að leggja fram tillögur sínar vegna endurskoðunar á fjárlagafrumvarpinu miðað við lækkun útgjalda um 10% af veltu. Svo eru ýmis viðmið í þessu bréfi um það hvernig ráðuneytunum beri að vinna þær tillögur.

Í framhaldinu var m.a. forstöðumönnum heilbrigðisstofnana sent bréf úr heilbrigðisráðuneytinu með tilmælum um samsvarandi samdrátt heilbrigðisstofnana um 10%. Sumar heilbrigðisstofnanir hafa verið fjársveltar um árabil og menn hafa viðurkennt að vitlaust hafi verið gefið, m.a. með því að leiðrétta eftir á í fjárlögum það sem upp á hefur vantað auk tilmæla um lokun einstakra deilda, svo sem skurðstofa eins og við hæstv. heilbrigðisráðherra ræddum hér í síðustu viku.

Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að eingöngu sé um hugmyndir að ræða, ekki hafi komið fram tilmæli um flatan 10% niðurskurð. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég átta mig ekki fullkomlega á því hvað þarna er í gangi. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur svo í framhaldinu rætt um hugmyndir þess efnis að koma á einhvers konar sérhæfingu í kragasjúkrahúsunum, þ.e. sjúkrahúsunum í sveitarfélögunum sem liggja hringinn í kringum höfuðborgarsvæðið. Það væri gott, virðulegi forseti, ef hæstv. heilbrigðisráðherra gæti skýrt þá augljósu mótsögn sem felst í tilmælum um 10% niðurskurð annars vegar og orðum hans um að eingöngu sé um hugmyndir að ræða, ekki síst með hliðsjón af fréttaflutningi um að hæstv. félagsmálaráðherra telji slíkan niðurskurð í velferðarkerfinu óásættanlegan og hyggist fara aðrar leiðir en tilmæli fjármálaráðherra segja til um.